Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætla að keyra þar til skýrari tilmæli liggja fyrir

Mynd með færslu
 Mynd:
Kynnisferðir bjóða enn upp á ferðir í hópferðabílum milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Í dag tóku gildi nýjar reglur fyrir alla komufarþega um tvöfalda sýnatöku og fimm til sex daga sóttkví. Samkvæmt tilmælum landlæknis eiga farþegar að að halda rakleiðis á sóttkvíarstað með einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl.

Að mati Björns Ragnarssonar, framkvæmdastjóra Kynnisferða, eru tilmælin á vef embættis landlæknis ekki nógu skýr. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa falast eftir fullnægjandi skýringum á nýju reglunum. Björn segir skjóta skökku við að farþegar fái að fara með leigubílum frá flugvellinum, þar sem ekki er hægt að virða nándartakmörk og grímur ekki skylda. 

„Sóttvarnarlega séð þá finnst okkur þetta skrýtið,“ segir Björn og bendir á að farþegarnir hafi alla jafna verið saman um borð í flugvél áður en úr flugstöðinni er haldið. „Við förum auðvitað eftir þeim leiðbeiningum sem gilda  og erum búin að vera í sambandi við almannavarnir,“ segir hann. 

Þegar aðgerðir voru hertar við landamærin í vor, og komufarþegum gert að fara í tveggja vikna sóttkví, var farþegum ráðlagt að fara með einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl frá flugstöðinni. Það var hins vegar ekki skylda. Björn vonast til þess að sama verði uppi á teningnum nú. 

„Þetta mátti í vor og okkur finnst skrýtið að það megi ekki núna. Við vonum að við megum keyra en auðvitað förum við eftir reglum. En meðan við bíðum eftir nánari svörum frá sóttvarnaryfirvöldum, þá ætlum við að keyra,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/Embætti landlæknis