
Veita Icelandair ríkisábyrgð á lánalínu
Viðræður hafa staðið yfir undanfarið milli Icelandair Group og íslenskra stjórnvalda í samvinnu við viðskiptabanka félagsins, Íslandsbanka og Landsbankann, um útfærslu á lánalínu með ríkisábyrgð til félagsins.
Ábyrgðin er háð því að samþykki náist milli aðila um skilmála hennar, samþykki Alþingis og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.
Greint var frá því í gær að Icelandair Group hefði frestað hlutafjárútboði félagsins og nú er stefnt að því að útboðið fari fram í september en ekki ágúst. Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair, sagði í samtali við fréttastofu að ástæða frestunarinnar sé töf sem varð á viðræðum við kröfuhafa og Boeing vegna Max-vélanna.
Haft var eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, fyrr í mánuðinum að forsendan fyrir lánalínu stjórnvalda væri sú að útboðið klárist. Þetta þurfi þó allt að vinnast saman þar sem fjárfestar þurfa einnig að vita hvernig lánalínan lítur út. „Það er samt forsenda hjá stjórnvöldum að útboðið klárist,“ sagði Bogi.