Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrír sýknaðir, einn sakfelldur í Hariri-máli

18.08.2020 - 14:33
epa08610509 Presiding Judge David Re, Judge Janet Nosworthy and Judge Micheline Braidy attend a session of the United Nations-backed Lebanon Tribunal handing down a judgment in the case of four men being accused for the 2005 bombing that killed former Prime Minister Rafik al -Hariri and 21 other people, in Leidschendam, Netherlands, 18 August 2020.  EPA-EFE/Piroschka van de Wouw / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ANP POOL
Dómur var kveðinn upp í dag yfir fjórum liðsmönnum Hezbollah-hreyfingarinnar vegna morðsins á Rafic Hariri fyrrverandi forseta Líbanons. Þrír þeirra voru sýknaðir af öllum ákæruliðum.

Hariri var ráðinn af dögum í Beirút árið 2005. Bílsprengja varð honum og 21 öðrum að bana, 226 slösuðust í sprengingunni. Rannsókn málsins og málatilbúnaður snerist mjög um nokkra farsíma sem talið var að hefðu verið notaðir við skipulagningu árásarinnar.

Talið er hafið yfir skynsamlegan vafa að Salim Ayyash hafi notað einn þeirra farsíma sem nýttir voru til að fylgjast með ferðum Hariris. Ayyash er einnig talinn hafa sterk tengsl við Hezbollah og vera forsprakki hópsins.

Svo fór að hann einn var fundinn sekur um að hafa tekið þátt í að skipuleggja og fremja morðið á Hariri.

Ekki nægar sannanir fyrir aðild þriggja

Dómarinn telur ekki nægilegar sannanir fyrir aðild þriggja hinna grunuðu, þeirra Hassan Habib Merhi, Assad Sabra og Hussein Onessi. Þeir voru því allir sýknaðir af nokkurri aðild að morðinu. Hussein Oneissi var þó talinn hafa verið helsti notandi eins símanna sem notaðir voru við skipulagningu tilræðisins.

Dómari nefndi þó áður að tveir þeir fyrrnefndu væru taldir hafa sent Al-Jazeera fréttastofunni falsað myndband sem tengdi uppskáldaðan hóp við tilræðið. Erfitt sé að sanna tengsl eða notkun þeirra á margnefndum farsímum. Einn þeirra deildi síma með eiginkonu sinni sem brýtur niður sönnunarfærslu gegn honum.

Sömuleiðis bentu sönnunargögn hvorki til beinnar þátttöku Sýrlandsstjórnar né forystu Hezbollah-samtakanna. Þó hafi tilefni þeirra til að ráða Hariri og bandamenn hans af dögum verið ærið.

Dómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna með aðsetur í Haag í Hollandi hefur fjallað um málið um ellefu ára skeið. Hinir ákærðu voru ekki viðstaddir dómsuppkvaðninguna en Hassan Nasrallah leiðtogi Hezbollah hefur alltaf neitað að framselja þá. 

Dómarinn David Re kvaðst vonast til að niðurstaðan veitti fórnarlömbum tilræðisins og aðstandendum þeirra sálarró. Saad Hariri, sonur hins myrta forsætisráðherra kveðst sætta sig við niðurstöðuna. 

Tilræðið breytti ástandinu í Miðausturlöndum

Rafic Hariri var forsætisráðherra Líbanons frá árinu 2000 fram í október 2004. Í upphafi voru fimm ákærðir vegna málsins en Mustafa Badreddine sem álitinn er hugmyndafræðingur árásarinnar er talinn hafa fallið í bardaga nærri Damaskus árið 2016. 

Tilræðið við Hariri breytti ástandinu í Miðausturlöndum. Fjöldamótmæli urðu til þess að sýrlenskar hersveitir yfirgáfu Líbanon eftir þriggja áratuga hersetu.

Óttast hefur verið að óeirðir brjótist út í Líbanon eftir dómsuppkvaðninguna. Refsing Salims Ayyseh verður ákveðin síðar en nú verður gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum.