Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Styðja sveitarfélög sem urðu fyrir mestum áföllum

Mynd með færslu
 Mynd: Reynisfjall - Google
Sex sveitarfélög fá samtals 150 milljónir króna til að bregðast við hruni í ferðaþjónustu. Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Skútustaðahreppur fá mest í sinn hlut, 32 milljónir hvert sveitarfélag um sig.

Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra kynnti ríkisstjórn í morgun hvernig skipta ætti 150 milljóna króna framlagi ríkisins til sveitarfélaga sem standa höllum fæti vegna hruns í ferðaþjónustu. Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Skútustaðahreppur fá hvert um sig 32 milljónir. Bláskógabyggð, Rangárþing eystra og Hornafjörður fá fá átján milljónir. Þessi sex sveitarfélög standa veikast vegna hruns í ferðaþjónustu, samkvæmt greiningu Byggðastofnunar sem birt var í maí. Féð á að styðja við atvinnulíf og samfélag.

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir að fyrir sveitarfélag sem glími við mikið atvinnuleysi og tekjutap sé gott að fá stuðning til uppbyggingar. „Ég er viss um það að það verður hægt að nýta þetta til góðra verka. Þó svo að 18 milljónir séu kannski ekki gríðarlega há tala til að skapa framtíðargrundvöll undir fjölbreyttara atvinnulíf þá er hægt að nota þetta til að styrkja ýmsar stoðir í samfélaginu.“

Sveitarfélögin sex lögðu ýmsar tillögur fyrir teymi sem mátu stöðuna. Ásta segir að næsta verk sé að ganga endanlega frá því hvaða verkefni verði fjármögnuð með þessum hætti og koma þeim í framkvæmd. Hún segir að í Bláskólabyggð sé horft til þess að hlúa að viðkvæmari hópum í samfélaginu, til dæmis eldri borgurum, erlendum ríkisborgurum og börnum, en einnig til verkefna á sviði umhverfismála.
 

 

Mynd með færslu
Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri Bláskógabyggðar Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri í Bláskógabyggð.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV