
Sjöunda lota viðræðna Breta og Evrópusambandsins hefst
Samtal þeirra Michel Barnier og David Frost markar upphaf sjöundu lotu viðræðnanna. Á morgun og á fimmtudag einbeita embættismenn sér að smáatriðum samkomulagsins. Frost og Barnier hittast svo aftur á föstudag.
Í síðasta mánuði var gert hlé á samningaviðræðum en ljóst var að samningar næðust ekki á skömmum tíma. Þó ríkti bjartsýni um að niðurstaða fengist innan nokkurra mánaða.
Fulltrúar Evrópusambandsins líta svo á að ef Bretar vilji halda tengslum sínum við opna markaðinn þurfi þeir að fylgja stöðlum sambandsins gaumgæfilegar en aðrar þjóðir. Það sé vegna nábýlis þeirra og fyrri stöðu sem Evrópusambandsríkis.
Svar breskra stjórnvalda er að þeim beri eins samningar og önnur sjálfstæð ríki hafa fengið. Evrópusambandinu virðist ekki liggja eins mikið á og Bretum að ná samkomulagi.
Breskir embættismenn telja að samningur þurfi að liggja fyrir um miðjan október þannig að hægt verði að þýða hann og staðfesta af hálfu Evrópuþingsins.