Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ríkið tekur yfir rekstur öldrunarheimila Akureyrar

Mynd með færslu
 Mynd: Halldór Guðmundsson
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að Heilbrigðisstofnun Norðurlands taki tímabundið við rekstri öldrunarheimila Akureyrar frá og með næstu áramótum. Á þriðja hundrað starfsmenn færast þá frá Akureyrarbæ til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Akureyrarbær hefur rekið öldrunarheimilin Hlíð og Lögmannshlíð með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Bæjarráð samþykkti hins vegar fyrr á þessu ári að framlengja ekki rekstrarsamning vegna heimilanna sem rennur út núna um áramót.

Sjá einnig: Akureyrarbær framlengir ekki samning um öldrunarheimili

Í tilkynningu frá Akureyrarbæ segir að viðræður um framtíðarskipan rekstursins hafi átt sér stað síðustu mánuði. Megináhersla hafi verið lögð á að standa vörð um gæði þjónustunnar og koma í veg fyrir óvissu á meðan unnið sé að framtíðarskipan málaflokksins. 

Breytt fyrirkomulag tekur gildi 1. janúar og færast þá á þriðja hundrað starfsmenn öldrunarheimilanna frá Akureyrarbæ til HSN. Réttindi og kjör þeirra haldast óbreytt samkvæmt kjarasamningum. Svandís hefur skipað starfshóp til að vinna að úttekt á rekstri hjúkrunarheimila landsins. Framtíð rekstursins mun taka mið af niðurstöðu þeirrar úttektar. 

Sjá einnig: Greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra á ríkið að standa undir kostnaði af starfsemi hjúkrunarheimila en í flestum tilvikum hefur sjálfur reksturinn verið falinn sveitarfélögum eða sjálfseignarstofnunum. Sveitarfélög hafa ítrekað kvartað undan þungum rekstri heimilanna og hafa sum borgað hundruð milljóna með rekstrinum þar sem fjárveitingar duga ekki.

Sjá einnig: Sveitarfélög segja sig frá rekstri öldrunarheimila