Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýjar reglur á landamærum þurfa að gilda í marga mánuði

18.08.2020 - 20:43
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nýjar reglur sem taka gildi á landamærunum á miðnætti þurfi að gilda í marga mánuði. Samkvæmt nýju fyrirkomulagi verða allir farþegar skimaðir við komuna til landsins og aftur að lokinni fimm daga sóttkví.  

„Já, ég held það nú, ef við viljum halda veirunni frá landinu, þá held ég að við þurfum að gera það í marga mánuði. Ég held að staðan sé bara þannig,“ sagði Þórólfur í viðtali í Kastljósi í kvöld, aðspurður hvort hann teldi að nýtt fyrirkomulag á landamærunum yrði lengi í gildi. Hann sagði mikilvægt að gera ný vinnubrögð að venju, þau mættu ekki vera tekin upp sem átaksvinna eða krísuvinna við og við.  

Þá sagði Þórólfur að sóttvarnayfirvöld hefðu lært margt frá því slakað var á ferðatakmörkunum þann 15. júní síðastliðinn. „Við lögðum upp í þessa vegferð 15. júní þegar landamærin voru opnuð meira en þau voru, þau voru aldrei lokuð, með það að markmiði að reyna að takmarka innflæði veirunnar sem mest inn í landið. Og ekki síst að reyna að fá vitneskju um það hvernig hún hegðar sér.“

Nú hefðu safnast verðmætar upplýsingar. Alls hefðu 60 smit greinst á landamærunum og nú væri ljóst að það þyrfti aðeins einn farþegi að koma með veiruna til landsins til þess að valda faraldri. Við ákvarðanir gætu yfirvöld nú notast við þá þekkingu sem safnast hefði síðustu vikur.