Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Mitt Ísland er litríkt“

Mynd: Sigurður Oddsson / Les Freres Stefson

„Mitt Ísland er litríkt“

21.08.2020 - 10:12

Höfundar

Önnur breiðskífa Loga Pedro, Undir bláu tungli, kemur út í dag. Hún hefur verið tvö ár í smíðum en fyrstu lögin urðu til haustið 2018 rétt eftir að fyrsta breiðskífa Loga kom út. Þá fór hann til Sierra Leone að vinna að upptökuverkefni með breskum, íslenskum og innlendum tónlistarmönnum.

Sumarið 2019 fór hann aftur til Sierra Leone að spila á tónlistarhátíð. „Í seinni ferðinni tek ég upp nokkur lög sem eru á plötunni. En platan verður fyrir miklum áhrifum frá þessum tíma þó hún hafi ekki öll verið unnin þarna, og hún er undir miklum áhrifum frá afrískri popptónlist sem ég kynntist þarna.“ Þar á meðal var nígeríski tónlistarmaðurinn Burna Boy sem er einn stærsti tónlistarmaðurinn í Afro Popp stefnunni. „Mér fannst það geggjað og fannst eins og ég væri að heyra eitthvað nýtt og spennandi, og þá voru alveg einhver ár síðan ég hafði heyrt eitthvað nýtt og spennandi.“

Logi segir að fyrsta platan sín, Litlir svartir strákar, sé meira eins og klippiverk heldur en sú nýja. „En á sama tíma eru nokkur vers á plötunni eins og dagbókarfærslur. Hún er ekki retróspektíf heldur í núinu, maður er alveg eins og opið sár á henni.“ Margt hafi breyst á þeim tveimur árum sem hafa liðið síðan þá. „Mér líður eins og ég sitji betur í mér á þessari plötu. Á hinni plötunni var ég að reyna að kjarna mína list og kynna mig sjálfan sem sólólistamann. En núna er ég orðinn öruggari í því sem mig langar að gera.“ Eitt lagið á plötunni er tileinkað móður Loga sem kemur frá Angóla.

„Ég byrjaði að setja sögu móður minnar í samhengi við óöldina í Bandaríkjunum og Black lives matter hreyfinguna.“ Hann segir helstu umfjöllunarefni plötunnar vera um hvernig það er að vera svartur á Íslandi, uppruna, daglegt líf og átök. „Textarnir snúast samt kannski ekki alltaf beint um það, bara tilurð þeirra er þannig.“ Í síðasta lagi plötunnar Reykjavík syngur Logi til sonar síns en líka um missi sem átti sér stað áður en hann fæddist. „Það var fósturlát sem við gengum í gegnum. En svo verður náttúrulega Bjartur sonur minn til og það er guðs gjöf.“

Hefur selt 20.000 eintök

Platan stendur að sögn Loga fyrst og fremst fyrir líf og uppruna hans sjálfs. „Að vera íslenskur en líka afrískur. Platan er að reyna að kjarna það með afrískri tónlist og íslenskum textum og búa til rými fyrir þá upplifun.“ Hann segist oft hafa upplifað sig utan hópa en undanfarin ár hafi hann fundið meira öryggi í eigin sjálfsmynd. „Ég hef líka verið að vinna í tónlist lengi en það er alltaf flókið og erfitt. Ég upplifði að gefa út fyrstu plötuna mína 2008 og held ég hafi selt 20 þúsund eintök af físískum plötum á Íslandi. Það mun aldrei gerast aftur.“

Á plötunni er talsvert um vísanir í íslenska dægurmenningu. „Ég flyt til Íslands 1995 og missi eiginlega af íslenskri poppmenningu. Fyrsta íslenska tónlistin sem ég virkilega hlustaði á var rapp, Rottweiler-hundar og allt það, og Laddi.“ Hann segist hafa unnið markvisst í því undanfarin ár að horfa á og lesa efni eftir svarta listamenn, til að mynda höfundarverk Spike Lee, sem hann vitnar í í laginu Um Da Tímann ´N Da Vatnið. „Líka Malcolm X sem er besta mynd sem ég hef séð og fær ekki nógu mikið lof.“

Sest á skólabekk í haust

Logi telur mikilvægt að auka sýnileika Íslendinga sem ekki eru hvítir, og það hafi verið sárt að sjá rasískt grín Péturs Jóhanns á dögunum. „Í þeirra Íslandi er þessi asíska kona ekki til, þeir eru ekki að móðga neinn því hún er ekki í þeirra lífi. En í mínu lífi er þetta fólk til, ég held það hafi verið kveikjan. Að minna á að mitt Ísland er litríkt. Ég held það séu mjög margir Íslendingar sem búa á sama Íslandi og ég, en svo eru margir sem búa á einhverju allt öðru Íslandi.“

Logi segir erfitt að spá í hvernig hann fylgi plötunni eftir við núverandi samkomutakmarkanir. „Ég ætla nú bara að byrja í skóla. Taka mér frí frá fyrirtækinu og skráði mig í vöruhönnun í Listaháskólanum.“

Anna Marsý ræddi við Loga Pedro í Tengivagninum.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Martröð Miðflokksins“ fagnar afrísk-norrænum uppruna

Tónlist

Allir eiga sína svörtu ekkju

Tónlist

„Erum öll mannleg að reyna að leysa flækjur“

Tónlist

Óx með tónmenntastofu Austurbæjarskóla