Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Lækkuð framlög úr jöfnunarsjóði verði til umræðu

18.08.2020 - 08:09
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Ríkisstjórnin heldur sumarfund á Hellu í dag klukkan tíu. Að honum loknum mun ríkisstjórnin funda með fulltrúum sveitarfélaganna fimmtán á Suðurlandi á Hótel Læk. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, segir tekjufall í vetur áhyggjuefni flestra sveitarfélaganna. Hann á von á að lækkuð framlög úr jöfnunarsjóði verði rædd við ríkisstjórnina.

Hann var á línunni á Morgunvakt Rásar 1. 

Ágúst segir að það skipti mjög miklu máli, ekki síst fyrir ríkisstjórnina, að koma á önnur landsvæði og funda með sveitarstjórnum þar. „Það er alltaf öðruvísi að mæta á staðinn og sjá hvernig aðstæður eru og setja sig í spor þeirra sem búa viðkomandi svæði.“

Varðandi málefni fundarins segir Ágúst að flestir velti fyrir sér núverandi ástandi af völdum kórónuveirunnar. Þær efnahagsafleiðingar sem þær geta haft og eru þegar að hafa, atvinnuástand og rekstur sveitarfélaganna er það sem verði efst á baugi. „Svo er ýmislegt fleira til framtíðar litið sem vert er að ræða,“ segir Ágúst.

Tekjufall í vetur áhyggjuefni

Búið sé að staðfesta samdrátt í tekjustofnum sveitarfélaga vegna jöfnunarsjóðs. Útgreiðslur hafi lækkað um 12,5% og því séð fram á tekjufall. Sjóðurinn er afar mikilvægur til að jafna stöðu sveitarfélaga, sum sveitarfélög byggja afkomu sína mikið á sjóðnum, segir Ágúst.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV