Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kjaradeila á Herjólfi í hendur ríkissáttasemjara

18.08.2020 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Enginn árangur varð af samningafundi Sjómannafélags Íslands og útgerðarfélags Herjólfs í morgun vegna deilu um kjör undirmanna á ferjunni. Því ákváðu samninganefndirnar að vísa kjaradeilunni aftur til ríkissáttasemjara.

Þetta var annar fundur samninganefndanna á tæpri viku. Það eru fyrstu fundirnir eftir að verkfalli Sjómannafélagsins var aflýst upp úr miðjum síðasta mánuði. Þá var stefnt að því að samningur lægi fyrir ekki síðar en í gær.

Samninganefndirnar ákváðu á fundi sínum í morgun að biðja ríkissáttasemjara að taka aftur að sér stjórn viðræðna. Sjómannafélag Íslands vísaði kjaradeilunni til ríkissáttasemjara í febrúar. Samninganefndirnar ákváðu hins vegar í síðasta mánuði að taka málið aftur í sínar hendur og reyna að leysa það án aðkomu ríkissáttasemjara. Nú fer kjaradeilan hins vegar aftur til ríkissáttasemjara.