Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Jafngildir tveggja vikna vinnu að svara Pírötum

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi - skjáskot
Það jafngildir tveggja vikna vinnu sérfræðings að svara fyrirspurnum þingflokks Pírata til fjármálaráðuneytisins. Þetta kemur fram í svörum fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Brynjar Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Brynjar spurði öll ráðuneytin í vor hversu margir starfsmenn hvers ráðuneytis kæmu að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hve dýrt væri að svara fyrirspurnum Pírata.

Ráðherrar tíu ráðuneyta hafa nú svarað Brynjari og er fjármálaráðuneytið eitt um að leggja mat á fjölda vinnustunda. Hin ráðuneytin svara því til að svörin krefjist mismikillar vinnu og ekki sé haldið sérstaklega utan um fjölda vinnustunda við undirbúning skriflegra svara.

Fyrirspurnum fjölgaði um 160%

Fyrirspurnum til flestra ráðuneytanna hefur farið fjölgandi á árabilinu 2015-2020 og hefur þeim fjölgað um 160% til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, tímabilið sem Brynjar spyr um.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir flestar þeirra 358 fyrirspurna sem ráðuneytinu bárust á árabilinu hafa komið frá þingflokki VG, eða 25%. Fjármálaráðherra segir 22% heildarfyrirspurna til ráðuneytisins hafa borist frá Pírötum. Aðeins 2% fyrirspurna á yfirstandandi þingi hafa þó borist frá þingflokkunum.

Önnur ráðuneyti gefa upp töluna fyrir yfirstandandi þing og hafa flestar fyrirspurnir til þeirra borist frá þingflokki Pírata á tímabilinu. Þannig komu 50% fyrirspurna til umhverfis- og auðlindaráðuneytis  frá Pírötum, 44% til dómsmálaráðuneytis, 40% til félagsmálaráðuneytis og 31% fyrirspurna til forsætis- og heilbrigðisráðuneytanna.

Flestar fyrirspurnir frá Birni Leví

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er líka sá sem flestar fyrirspurnirnar á, en Brynjar óskaði eftir að fá upp gefið hversu hátt hlutfall fyrirspurnanna komi frá hverjum þingmanni Pírata.

Samkvæmt svörum dómsmálaráðherra er Björn Leví með 15% heildarfjölda allra fyrirspurna og segir sjávarútvegsráðherra hann vera með 10% allra fyrirspurna til síns ráðuneytis.

Þá á þingmaðurinn allar fyrirspurnir sem samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu hefur borist frá Pírötum og sautján fyrirspurnir af þeim átján sem hafa borist umhverfis- og auðlindaráðuneyti frá þingmönnum Pírata.

Björn Leví hefur líka verið ötull í fyrirspurnum sínum til félags- og barnamálaráðherra og höfðu 29% þeirra 31% fyrirspurna sem ráðherranum bárust frá Pírötum komið frá honum og 31% af 33% fyrirspurna Pírata til heilbrigðisráðherra.

Utanríkisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra eða ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar hafa enn ekki svarað fyrirspurn Brynjars.