Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hætta á hlaupi úr Grímsvötnum enn fyrir hendi

18.08.2020 - 11:20
Búist er við hlaupi og eldgosi í Grímsvötnum á næstu vikum eða mánuðum, segja sérfræðingar. Mikil bráðnun á yfirborði íshellunnar yfir Grímsvötnum varð til þess að GPS-mastur var farið að hallast og gaf því falskar niðurstöður um yfirvofandi hlaup í síðustu viku.

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands, Landhelgisgæslunnar og frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fóru með þyrlu að Grímsvötnum á Vestanverðum Vatnajökli að kanna aðstæður eftir að mælingar bentu til að hlaup væri að hefjast. Þá sáu þeir að mastur sem er borað ofan í íshelluna var farið að halla töluvert. „Snjórinn í kringum það hafði bráðnað og það er það sem skýrir þetta merki sem við sáum á mælitækjum á Veðurstofunni. Þetta voru ekki fyrstu merki um að hlaup væri að hefjast, heldur að gps-tækið sjálft væri að ferðast eða færast til á yfirborði íshellunnar,“ segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá Almannavörnum.

Enn sé þó hætta á hlaupi undan Grímsvötnum. „Hættan er ekki liðin hjá og eins og við höfum áður sagt, frá því í vor, að þar sem að vatn er að safnast undir íshellunni núna, og hefur svolítið hert á, þá getum við búist við jökulhlaupi í sumar eða í haust,“ segir Björn.

Eldgos gæti fylgt á eftir hlaupinu

Síðast gaus í Grímsvötnum 2011 og var það stærsta gos þar í 140 ár. Mælingar benda til þess að nú sé aftur eldgos í vændum. Þá er algengt gjósi ef að þrýstingur lækkar í kjölfar hlaups.

Björn segir að 80% eldgosa í Grímsvötnum séu frekar lítil og standi stutt yfir. „Það var mjög stórt gos 2011 en við höfum bara séð þrjú slík gos síðustu 400 árin,“ segir Björn. Ekki sé hægt að útiloka að næsta hlaup verði af svipaðri stærð. 

Gos úr eldstöðinni hefði tiltölulega lítil áhrif í byggð, en gæti haft áhrif á flugumferð og valdið öskufalli. „2011 þá fengum við í rauninni meiri ösku á þremur til fimm dögum heldur en á 30 dögum í Eyjafjallajökli,“ segir Björn. „Og í Kirkjubæjarklaustri og þar í kring þá upplifði fólk algert myrkur á miðjum degi.“