Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Nokkuð hefur borið á óánægju meðal sveitastjórna undanfarin misseri vegna fjárveitinga til hjúkrunarheimila og hafa nokkur sveitarfélög ýmist ákveðið eða undirbúa að slíta samningum við ríkið um reksturinn.

Vestmannaeyjar, Mosfellsbær og nú síðast Akureyrarbær hafa sagt upp sínum samningi. Þá neitaði Seltjarnarnes að taka við rekstri nýs hjúkrunarheimilis þar í fyrra og árið 2016 höfðaði Garðabær mál á hendur ríkinu og gerði fjárkröfu sem nam uppsöfnuðu tapi af rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar.

Hefur starfshópnum verið falið að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað heimilanna og segir í frétt á vef stjórnarráðsins að mikilvægt sé að greiningin „njóti trausts allra aðila“ og er með því vísað til bæði ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna sé það grundvallarforsenda að greiningin sé gerð fyrir allra augum.

Hópinum er meðal annars falið að greina kostnað vegna kröfulýsingar fyrir hjúkrunar- og dvalarrými frá árinu 2016 sem höfð hefur verið til grundvallar núverandi samningum. Einnig á hann að sundurgreina raunkostnað við mismunandi þjónustu á heimilunum, m.a. heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, húsnæðis- og fæðiskostnað og umönnun.

Einnig á að skoða áhrif fjölda hjúkrunarrýma á rekstrarkostnað og þau áhrif sem samsetning íbúa og áhrif búsetu getur haft á rekstrarkostnaðinn. Er þar sérstaklega veið að horfa til yngri íbúa og einstaklinga sem glíma við tiltekin vandamál á borð við  fíkni- og eða geðsjúkdóma, heilabilun eða alvarlegar hegðunartruflanir.

Þá verða skoðuð áhrif óvenju kostnaðarsamrar heilbrigðisþjónustu einstaklings á rekstur hjúkrunarheimila af mismunandi stærð og að hvaða áhrif þau hafa á rekstur hjúkrunarheimila af mismunandi stærð.

Loks á starfshópurinn að skoða fjármögnun og áhrif mismunandi eignarhalds á reksturinn, staðsetningu með tilliti til sjúkraflutningskostnaðar og kostnaðarþátttöku íbúa.

Hópinn skipa fulltrúar Heilbrigðisráðuneytis, Sjúkratrygginga Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og er Gylfi Magnússon formaður hópsins.

Starfshópurinn á að skila niðurstöðum sínum fyrir 1. nóvember á þessu ári.