Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Framlengja neyðarúrræði fyrir heimilislausar konur

18.08.2020 - 15:17
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir - RÚV
Reykjavíkurborg ætlar að framlengja neyðarúrræði sem komið var á fót fyrir heimilislausar konur í upphafi kórónuveirufaraldursins. Í tilkynningu frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar segir að sviðið eigi nú í viðræðum við eiganda hússins um áframhaldandi rekstur til skamms tíma. Vilyrði hefur fengist fyrir áframhaldandi fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu.

Átta heimilislausar konur sendu fjölmiðlum yfirlýsingu í dag þar sem þær gagnrýndu fyrirhugaða lokun úrræðisins. Stjórn Geðhjálpar tók undir yfirlýsinguna. 

„Það á enginn að vera heimilislaus. Sorglega staðreyndin er sú að það þurfti heimsfaraldur til að aðeins færri yrðu heimilislausir á Íslandi. Vegna COVID-19 neyddust yfirvöld til að gefa heimilislausum þak yfir höfuðið. Það er nefnilega erfitt að halda sig heima, ef þú átt hvergi heima,“ segir meðal annars í yfirlýsingu kvennanna. 

Þar segir að tíu heimilislausar konur á aldrinum 19 til 60 ára hafi flutt inn í húsnæði sem átti að vera tímabundið úrræði fyrir heimilislaust fólk vegna kórónuveirufaraldursins. „Nú þegar COVID-19 smitum hefur fækkað á Íslandi á að loka úrræðinu og henda okkur aftur út á götuna,“ segir í yfirlýsingunni. 

Betra líf eftir að þær eignuðust samastað

Konurnar eru sammála um að jákvæðar breytingar hafi orðið á lífi þeirra eftir að þeim var gefinn kostur á að dvelja í húsnæðinu. 

„Síðan ég brotlenti á götunni þá er ég bara búin að reyna að laga hluti. Ég náði aldrei að laga neitt fyrr en eftir þriðju viku í öruggu húsnæði. Ég gat talað við fólkið sem býr hérna. Átt einlæg og yndisleg samtöl og myndað sambönd. Svo allt í einu þegar ég rakst á strákinn sem beitti mig rosalegu ofbeldi, sem ég hélt að yrði það hræðilegasta af öllu, þá gat ég komist yfir það af því ég gat komið alltaf bara hingað og grátið og verið reið og sofið. Ég gat byrjað að vinna úr áföllum af því ég hafði aðrar manneskjur til að tala við á öruggum samastað,“ segir ein kvennanna. 

„Það er mikilvægt að hafa húsnæði, það er mikilvægt svo við frjósum ekki í hel. Það er réttur allra. Eftir að ég fékk pláss hér er ég orðin betri til alls. Það er allt betra. Mér líður öruggri, ég get lagt mig hvenær sem ég þarf án þess að vera á sífellu varðbergi og án þess að lögreglan komi og veki mig. Ég get haft dótið mitt í kringum mig og verið inni hjá mér með lokaðar dyr,“ segir önnur. 

Neyðarskýli kemur ekki í stað heimilis

Heiða Björk Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, segir í samtali við fréttastofu að til hafi staðið að framlengja úrræðið. Það hefur þegar verið framlengt einu sinni. Hún segir að ánægjulegt hafi verið að heyra rödd þessara átta kvenna og að reynsla þeirra af úrræðinu hafi verið jákvæð. 

Aðspurð hvort til greina komi að koma á fót sambærilegu úrræði til frambúðar segir Heiða að slíkt komi vel til greina. „Við erum alltaf að endurskoða hvernig best er að haga þjónustunni,“ segir hún. Óskað hefur verið eftir nýjum rekstraraðilum Konukots og Heiða segir ekki ósennilegt að athvarfið þróist meira í átt að neyðarúrræðinu sem komið var á fót vegna faraldursins. Þá staðhæfir hún að neyðarskýli geti ekki komið í stað heimilis og að stefna velverðarsviðs í málefnum heimilislausra taki mið af því. 

Konurnar benda á í yfirlýsingu sinni að skilningur almennings á heimilisleysi sé takmarkaður. Sá tvískinnungur sé algengur að fólk segist styðja heimilislaust fólk en sé hins vegar á móti því að það hafist við í búsetuúrræðum í eigin hverfi. „Þetta er alveg rétt og ljóst að við verðum að auka skilning almennings,“ segir Heiða.