Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Eiga von á flóðbylgju umsókna í símenntun

18.08.2020 - 15:18
Mynd: Geir Ólafsson / Geir Ólafsson
Eyjólfur Sturlaugsson, formaður Kvasis, samtaka símenntunar- og fræðslustöðva, segir að símenntunarstöðvarnar á landinu eigi von á mikilli fjölgun umsókna í haust vegna aukins atvinnuleysis og til að mæta henni þurfi aukið fjármagn. Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis segir að atvinnuleysi og reynslan frá því í hruninu gefa þeim vísbendingu um við hverju sé að búast.

Net símenntunarstöðva um allt land

Ellefu símenntunarstöðvar eru á landinu og eru þær með starfsstöðvar um allt land. Stöðvarnar eru í eigu sveitarfélaga, verkalýðsfélaga, fyrirtækja og stofnana og eru reknar án hagnaðarsjónarmiða. Í venjulegu árferði skipta nemendur þúsundum.

Símenntunarstöðvarnar sinna framhaldsfræðslu fyrir þá sem misst hafa vinnuna og eru virkar í endurmenntun á vinnumarkaði. Þær eru úrræðaaðilar fyrir Vinnumálastofnun og Virk ásamt að sinna fræðslu fyrir fatlað fólk. Flestar þeirra bjóða líka upp á framhaldsfræðslu fyrir fólk sem er með litla eða enga grunnmenntun auk þess sem þær sinna íslenskukennslu fyrir útlendinga o.fl.

Mynd með færslu
 Mynd: Kvasir
Eyjólfur Sturlaugsson, formaður Kvasirs samtaka símenntunar- og fræðslustöðva

Aðsókn stórjókst í hruninu fyrir 12 árum

Atvinnuleysi í síðasta mánuði var 8 prósent. Vinnumálastofnun spáir tæplega 9 prósenta atvinnuleysi í þessum og næsta mánuði. Um 17 þúsund eru algjörlega án vinnu og um 4 þúsund nýta hlutabótaleiðina, eða alls rúmlega 21 þúsund manns.  

Eyjólfur Sturlaugsson, formaður Kvasis - samtaka símenntunar- og fræðslustöðva, segir að nemendum símenntunarstöðvanna hafi fjölgað verulega í hruninu fyrir 12 árum. Hann á von á að það sama gerist nú: „Það sem gerðist síðast var að það stórjókst í úrræðum hjá okkur fólk sem var í atvinnuleit, var búið að vera atvinnulaust lengi og fólk sem að þurfti á einhvers konar endurhæfingu að halda til að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Fólk vill gjarnan þegar það hefur ekkert að gera, reyna að bæta við sig einhverri menntun og þá koma þessar vottuðu námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins vel til greina. Þetta er tiltölulega stutt nám sem hentar nokkuð vel að taka þegar fólk er á milli vinnu.“

Það má búast við talsvert mikilli aukningu og til að mæta því þá þarf sennilega að auka fé til þessa málaflokks. 

Unnið að úrræðum í menntun 

Eyjólfur segir að stjórnvöld hafi í allt sumar verið að móta úrræði í menntun.

„Frá því snemma í vor hefur verið í gangi svokallaður samhópur sem er samráðshópur tveggja ráðuneyta þar sem er unnið stíft að því að móta úrræði til næstu mánaða til þess að mæta hugsanlegri flóðbylgju fólks sem að þarf á einhvers konar úrræðum að halda. Það er ekki búið að ganga frá þessari vinnu að því ég best veit og þar af leiðandi ekki búið að ákveða með hvaða hætti framhaldsfræðslan og þessar ágætu símenntunarstöðvar verða styrktar til þessara verka.“

Ekki er ljóst hvenær má eiga von á einhverri niðurstöðu. 

„Ég held að það sem Vinnumálastofnun og menntamálaráðuneytið og í raun og veru allir séu að glíma við að það er þessi stöðuga óvissa hvernig ástandið verður í samfélaginu. Það veit raun og veru enginn enn þá hversu mikið atvinnuleysið verður eftir eina eða tvær vikur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sólveig Hildur Björnsdóttir
Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis símenntunar

Búa sig undir aukna aðsókn

Mímir símenntun er stærsta símenntunarstöðin með um 2500 nemendur á ári. Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri, segir að í hruninu hafi aðsókn aukist verulega og nú búi þau sig undir aukna aðsókn atvinnuleitenda og innflytjenda  

„Og okkar markhópur sem Mímir sinnir og símenntunarmiðstöðvar er einmitt sá hópur sem líklegt er að verði verst úti og missi störf. Það eru þeir sem hafa ekki mikla formlega menntun og það eru innflytjendur og þetta á líka við um fjórðu iðnbyltinguna, þetta er hópurinn sem er í mestri hættu á að missa störfin sín.“ 

Þegar talað er um fjórðu iðnbyltinguna er átt við þá tækniþróun sem orðið hefur undanfarið, hefur breytt þjónustustörfum og framlínustörfum og leitt til þess að fólk hefur misst vinnuna. Dæmi um slíkt er þegar teknir voru upp sjálfsafgreiðslukassar í verslunum hér á landi. Sólveig segir að verið sé að undirbúa nýja námsbraut fyrir þá sem vilja ná betri tökum á tækni.

„Það er mjög spennandi verkefni í deiglunni sem að við munum keyra í samstarfi við starfsmenntasjóði, stéttarfélög og verkalýðshreyfinguna.  Þannig að það er virkilega spennandi námskeið þar sem við munum reyna að grípa þá sem missa störfin sín eða eiga á hættu að missa störfin sín, annaðhvort vegna COVID eða tækniþróunar og grípa þá til þess að hjálpa því að öðlast meiri tæknifærni.“

Viðkvæmustu hóparnir 

Símenntunarmiðstöðvarnar sinna mjög viðkvæmum hópum. Þegar faraldurinn skall á í mars og þurfti að loka skólanum urðu starfsmenn að bregðast hratt við til að koma í veg fyrir brottfall nemenda.  

„Og það þurftum við að gera með því að hlaupa ansi hratt og færa allt í fjarnám fyrir alla þessa hópa. Og við gerðum það á nánast tveimur sólarhringum með frábæru starfsfólki og kennurum sem þess ber að geta að eru verktakar en tóku gríðarlega vel í allt saman með okkur og í samstarf við nemendurna.“

Þannig tókst að tryggja samfellu í náminu og færri heltust úr lestinni en óttast var. Í haust geta nemendur valið um staðnám og fjarnám en þó með þeim fyrirvara að staðnámið breytist í fjarnám ef ástandið versnar í samfélaginu.

Kennsla hefst eftir mánuð, skráning er hafin og ef marka má fyrstu skráningar kjósa fleiri fjarnám en áður. Mjög mikið er um fyrirspurnir. 

„Fólk er að spyrja meira. Það er óöruggt með hvort það eigi að velja fjar- eða staðnám. Það er að velta þessu fyrir sér og við erum að veita fólki ráðgjöf hvað það varðar af því það er einstaklingsbundið auðvitað hvað fólk treystir sér í og hverjar aðstæður fólks eru hverju sinni.“

Öðlast sjálfstraust að nýju

Sólveig segir að þeir sem komi í nám í Mími hafi oft ekki klárað nám á hefðbundnum tíma af ýmsum ástæðum.  Það sé stórt skref að hefja nám að nýju. Þegar fólkið komi í skólann sé það oft með lítið sjálfstraust - en svo fari það að blómstra. 

„Kennarar eru svo frábærir í því að byggja upp sjálfstraust á sama tíma og sjálfstraust til náms. Við fáum öll alltaf gæsahúð á útskriftum Mímis þegar kannski sá sem hafði mjög litla trú á sér heldur ræðu fyrir hönd nemenda á útskrift þar sem eru 150 manns.  Þannig að þetta er bara lítið dæmi um þá sigra sem okkar fólk er að ná með því að takast á við sjálft sig og byggja sig upp til framtíðar. Þetta er ekki lítið skref.“ 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV