Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brexit, fiskur og þorskastríðin 2

18.08.2020 - 12:31
Mynd: Pikist.vom / Pikist.com
Hugtakið ,,afstæður stöðugleiki“ hljómar eins og hugtak úr heimspólitík kalda stríðsins. Reyndar er hugtakið frá þeim tíma: var, og er enn, lykilhugtak í kvótaúthlutun Evrópusambandsins. Bretar vilja breyttar úthlutunarreglur en saga þessa hugtaks skýrir af hverju Bretum gæti gengið erfiðlega að fá sitt fram. Og ekki auðveldar það Brexit.

Tvö hundruð mílurnar og Haag-samþykktin

Bretar gerðust aðilar að Evrópusamvinnunni 1973 og tóku eftir það þátt í að þróa evrópska fiskveiðistefnu. Eftir að hafa barist gegn 200 mílna landhelgi bæði á alþjóðavettvangi og Íslandsmiðum, sættust Bretar 1976 á að 200 mílurnar yrðu evrópsk viðmið, eins og Spegillinn hefur áður rakið.

Sama ár var tekin veigamikil ákvörðun um kvótaúthlutun bandalagsins í svokallaðri Haag-samþykkt. Samþykktin var örstutt en átti að tryggja Bretlandi og Írlandi sérkjör af því sjávarútvegur skipti löndin miklu máli.

Sjö óbirtir viðaukar

Til nánari útlistunar á pólitískum vilja ráðherraráðsins fylgdu samþykktinni sjö viðaukar. Hið athyglisverða er að þeir voru ekki birtir, sem skýrist af miklum átökum bak við tjöldin. Og enn athyglisverðara að viðaukarnir hafa aldrei verið birtir. Hins vegar vitnað í þá í nokkrum úrskurðum Evrópudómstólsins sem staðfesti lagalegt gildi þeirra.

Haag-samþykktin 1976 og óbirtu viðaukarnir voru mikilvægur liður í næsta áfanga evrópsku fiskveiðistefnunnar: úthlutun kvóta til einstakra landa.

1983: nýjar reglur og ,,afstæður stöðugleiki“

Með nýjum reglum 1983 voru grunnforsendur kvótaúthlutunar skilgreindar sem ,,afstæður stöðugleiki.“ Miðunum í Norðursjó og nágrenni var skipt upp á korti og hlutur landanna í einstökum stofnum ákvarðaður í samræmi við afla landanna þarna á árunum 1973 til 1976.

Kvótauppbót fyrir Breta og Íra

Haag-viðaukarnir tryggðu Bretum og Írum svo sérstaka uppbót. En af hverju þurftu Bretar kvótauppbót? Jú, af því kvótaúthlutunin byggðist á afla undanfarinna ára. Slæmt fyrir Breta sem veiddu þá á Íslandsmiðum, ekki á miðunum þar sem átti nú að deila aflanum á forsendum fyrri veiða. Og Írar fengu uppbót af því fiskveiðar skiptu þá svo miklu máli.

Kjarni kvótaúthlutunar samkvæmt reglunum frá 1983

Kerfið er þá að kvóti einstakra stofna er auðvitað misjafn frá ári til árs – en ,,afstæði stöðugleikinn“ er að hlutfall einstakra landa af þessum kvóta er alltaf það sama. Fasta kvótahlutfallið kallast ,,lyklar“ sem fylgdu reglugerðinni 1983. Hér var aftur gripið til sama ráðs og með viðaukana 1976: lyklarnir voru aldrei birtir.

Þegar reglurnar voru kynntar Bretum 1983

Þegar Peter Walker þá sjávarútvegsráðherra Breta kynnti samkomulagið í breska þinginu í janúar 1983 sagði hann Breta mega vel við una; kominn traustur grunnur fyrir breskan sjávarútveg. Kvóti Breta fyrir sjö mikilvægustu tegundirnar væri rúmlega 37 prósent af heildarúthlutuninni, meira en afli jafnvel bestu veiðiáranna og mun betra en fyrsta tilboð bandalagsins upp á 31 prósent, sagði Walker.

Hnykkt á hvað Bretar misstu á Íslandsmiðum

Frá stjórnarandstöðunni heyrðist að 37 prósent væri mun minna en þau 45 prósent sem Bretar vildu. En Walker hnykkti á hvað breski úthafsflotinn hefði misst mikið við að missa Íslandsmiðin. – Eins og síðar var bent á í breskri þingskýrslu: Bretar þurftu að sætta sig við að vera reknir af Íslandsmiðum án þess að geta þá snúið sér að eigin miðum og rekið þaðan franska og aðra sjómenn sem höfðu veitt þar um aldir.

,,Lyklarnir“ sem aldrei voru birtir

En aftur að prósentunum. Walker lagði þarna saman hlutfallstölur fyrir sjö helstu bresku nytjastofnana. Í reynd eru tölurnar, eða lyklarnir, misjafnir eftir tegundum. Lyklarnir frá 1983 eru enn óbirtir en þegar ný aðildarlönd, með veiðirétt á þessum miðum, hafa bæst við í Evrópusamvinnuna hafa þeirra lyklar verið birtir í aðildarsamningum landanna.

1983-reglurnar enn undirstaða kvótaúthlutunar ESB

Þó kvótaúthlutunin byggi á óbirtum forsendum eru reglurnar frá 1983 enn í fullu gildi og notaðar til að reikna út aflahlutdeild ESB-landa, síðast í október í fyrra í úthlutun yfirstandandi árs. Út frá þeirri skiptingu má auðvitað reikna út aflahlutfall einstakra landa. Eins og talsmaður ESB upplýsti Spegilinn um: lyklarnir lifa í forritinu sem ESB notar við árlega kvótaúthlutun.

Bretar lengi óánægðir með ,,lyklakerfið“

Þrátt fyrir sérlega uppbót vegna tapaðra Íslandsmiða og að Bretar áttu þátt í að semja reglurnar 1983 hefur lengi verið urgur í Bretum yfir lyklakerfinu. Í Brexit-viðræðunum nú við ESB vilja Bretar meðal annars breyta þessu kerfi. Telja aðrar forsendur vera röklegri. ESB hafnar öllum breytingum.

Bretar tóku skakkan pól í 200 mílna hæðina – og kannski líka nú

Sannarlega rétt, auðvitað má hugsa sér aðrar úthlutunarforsendur en í reglunum frá 1983. Líkt og Bretar tóku á sínum tíma skakkan pól í hæðina varðandi 200 sjómílur vanmeta þeir kannski nú að frá sjónarhóli ESB hefur lyklakerfið reynst afar vel, skapað stöðugleika í 37 ár.

Stöðugleikinn hefur dugað ESB vel – og Bretar eru í Brexit-klípu

Í ljósi sögunnar þarf líklega mikið til að ESB taki í mál að breyta kvótareglunum. Nema þeir finni sniðuga lausn sem bæði haldi og sleppi. En sitji ESB fast við sinn keip eru Bretar í verulega þröngri Brexit-klípu.