Bandaríkin og Kólumbía saman gegn fíkniefnaviðskiptum

18.08.2020 - 06:59
epa06135679 Anti-narcotics police officer walks along cocaine hydrochloride pots, which were seized in a container in the port of Buenaventura, Colombia, 10 August 2017. Colombian police seized 1,054 kilos of cocaine in the port of Buenaventura, the
 Mynd: EPA
Bandaríkin og Kólumbía greindu frá nýrri herferð gegn eiturlyfjaviðskiptum. Ivan Duque, forseti Kólumbíu, og Robert O'Brien, þjóðaröryggisfulltrúi Bandaríkjanna, sögðu frá herferðinni við forsetahöllina í Bogota eftir fund þeirra þar í gærkvöld. Þeir sögðu ekki hvert umfang herferðarinnar yrði.

O'Brien sagði Bandaríkjastjórn ætla að veita Kólumbíu alla þá aðstoð sem þurfi til þess að tryggja öryggi í landinu, og berjast gegn glæpasamtökum.

Duque sagði Bandaríkjastjórn ekki aðeins hafa séð mikilvægi þess að berjast gegn eiturlyfjaviðskiptum og hryðjuverkum, heldur einnig mikilvægi þess að fjárfsta í svæðum sem hafa orðið fyrir barðinu á ofbeldi glæpasamtaka. 
Þeir sögðu herferðina nýjan kafla í hinni svokölluðu kólumbísku áætlun.

Stjórnvöld í Washington veittu Kólumbíu rúmlega sjö milljarða bandaríkjadala fjárhagsaðstoð í baráttunni gegn eiturlyfjaviðskiptum frá árinu 2000 til 2016. Sú fjárhæð fór þó að mestu leyti í baráttuna gegn skæruliðahreyfingum.

Eftir stutta, friðsama tíð hefur ofbeldisalda riðið yfir Kólumbíu enn á ný. 33 fjöldamorð hafa verið framin í landinu það sem af er ári samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Talið er að glæpaklíkur hafi borið ábyrgð á langflestum þeirra, því flest voru þau framin á svæðum þar sem vitað er til þess að ólögleg framleiðsla úr kókalaufum fer fram. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi