Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Auðveldara fyrir lítið leikhús að aðlaga sig

Mynd: RÚV / RÚV

Auðveldara fyrir lítið leikhús að aðlaga sig

18.08.2020 - 14:22

Höfundar

Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, segir undirbúning fyrir komandi leikár ganga ágætlega en hafa litast mjög af stöðunni í samfélaginu. Þau séu sífellt að aðlaga sig að veirunni og þeim takmörkunum sem eru í gildi. Hún segir sérstöðu Leikfélags Akureyrar felast í smæðinni og er bjartsýn að geta farið af stað með leikárið nokkurn veginn óbreytt. 

Leikfélag Akureyrar er eina atvinnuleikhúsið utan höfuðborgarsvæðisins. Aðstæður eru þó aðrar á Akureyri en hjá hinum atvinnuleikhúsunum, þar sem ekki hefur verið hægt að æfa stærri sýningar vegna fjöldatakmarkana og tveggja metra reglunnar.  

Bjartsýn fyrir komandi leikár

Marta segir auðveldara fyrir lítið leikhús, eins og Leikfélag Akureyrar, að aðlaga sig að takmörkunum heldur en í stærstu sýningum stóru leikhúsanna. Slíkar sýningar séu bundnar af því að vera með stóran leikhóp á sviðinu og verða að fá mikinn fjölda áhorfenda í sal, til að tapa ekki á sýningunni. 

Marta segir verkin sem framundan eru hjá Leikfélagi Akureyrar verði auðvelt að aðlaga að settum reglum. Fyrstu sýningarnar verða þátttökuverk, þar sem auðvelt verður að stýra hversu margir áhorfendur koma inn og hægt að stýra hvert þeir fara. Einnig munu þau setja upp leikverk á sviði þar sem eru fáir leikarar og telur Marta að hægt sé að fækka þar talsvert í sal og stýra áhorfendum. Hún er því bjartsýn fyrir komandi leikár. 

Hrísey og berklarnir í forgrunni í upphafi leikárs

Leikárið mun hefjast á sýningu sem heitir Eyja og gerist í Hrísey. Verkið er þátttökuverk í samstarfi við Steinunni Knútsdóttur og Grétu Kristínu Ómarsdóttur. Í verkinu ferðast leikhúsgestir til Hríseyjar og fjallar verkið bæði um brothætta byggð og að eiga heima á lítilli eyju. Gestir munu fá vegabréf, ferðast um Hrísey og lenda þar í ýmsu. 

Í september verður síðan frumsýnt verk sem að sögn Mörtu talar mjög sterkt inn í samtíma okkar. Verkið er í samstarfi við Maríu Pálsdóttur, sem rekur Hælið - setur um sögu berklanna. Verkið er þátttökuleikhús unnið upp úr sögum berklasjúklinga. Gestir koma inn á Hælið og upplifa sögur þessa fólks. Marta segir að með þessu verki sé talað beint inn í Covid, grímur og sótthreinsandi verða í boði og hægt verður að hafa mikla stjórn á aðstæðum. 

Rætt var við Mörtu Nordal í Síðdegisútvarpi Rásar 2. Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér að ofan.