Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

44 fyrirtæki hafa endurgreitt hlutabætur

Mynd með færslu
 Mynd:
44 fyrirtæki hafa endurgreitt hlutabætur fyrir samtals 210 milljónir króna. Þetta kemur fram í nýju yfirliti Stjórnarráðsins yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerða vegna COVID-19.

Hlutabótaleiðin var kynnt sem hluti af fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins þann 21. mars síðastliðinn. Henni var ætlað að styðja við fyrirtæki og launafólk með því að gera fyrirtækjum kleift að lækka starfshlutfall starfsfólks tímabundið og viðhalda ráðningarsambandi. Starfsfólk á hlutabótaleiðinni gat fengið allt að 75 prósent launa greidd úr atvinnuleysistryggingasjóði.

Fyrirtæki gagnrýnd fyrir að misnota úrræðið

Vinnumálastofnun birti í maí lista yfir öll fyrirtæki sem höfðu nýtt hlutabótaleiðina fyrir sex starfsmenn eða fleiri. Stór og stöndug fyrirtæki, sem ekki höfðu orðið fyrir miklum efnahagslegum áföllum sökum faraldursins, voru í kjölfarið gagnrýnd fyrir að nýta úrræðið að óþörfu. Sum reyndu jafnvel að nota hlutabætur til að spara kostnað af því að segja upp fólki með því að gera samning um hlutabætur á uppsagnarfresti. Samtök atvinnulífsins voru gagnrýnd harðlega fyrir að ráðleggja fyrirtækjum að nýta úrræðið með þessum hætti.

Þann 15. apríl tilkynnti Vinnumálastofnun að það væri grundvallaratriði fyrir greiðslu að ráðningarsamband væri í gildi. Samtök atvinnulífsins beindu því í kjölfarið til fyrirtækja að fylgja reglunum í samræmi við túlkun Vinnumálastofnunar.

Úrræðið viljandi haft opið í upphafi

Í skýrslu ríkisendurskoðunar frá því í maí kemur fram að Vinnumálastofnun hafi borist ábendingar um að fyrirtæki létu launafólk skila meira vinnuframlagi en starfshlutfall þeirra sagði til um. Í einhverjum tilvikum hefði starfshlutfall verið lækkað afturvirkt þótt starfsmenn hefðu unnið fullt starf.

Þar kemur einnig fram að stjórnvöld hafi ákveðið að hafa úrræðið opið til þess að tryggja að markmiðið með því næðist. Eftir að upp komst um fyrirtæki sem nýttu það að óþörfu hafi verið ákveðið að herða skilyrði. Með framlengingu hlutabótaleiðarinnar sem lögð var til með frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um miðjan maí voru skilyrðin gerð strangari og skýrari.

44 fyrirtæki hafa endurgreitt

Einhver fyrirtækjanna tilkynntu fljótt að þau myndu endurgreiða bæturnar, til dæmis Hagar, Samherji, Össur og Iceland Seafood. Í nýju yfirliti stjórnvalda kemur fram að nú hafi 44 fyrirtæki endurgreitt hlutabætur og 61 fyrirtæki óskað eftir því við Vinnumálastofnun að endurgreiða. Þá kemur einnig fram að 9.984 hafi fengið hlutabætur í júní og 3.811 í júlí.