
Tollstjóri Líbanon handtekinn
Daher hefur verið í haldi í meira en tíu daga en samkvæmt líbönskum lögum má halda fólki og yfirheyra það áður en til formlegrar handtöku kemur.
Langvarandi spillingu í stjórnsýslu landsins og vanrækslu við geymslu ammoníumnítrats hefur verið kennt um hvernig fór. Ástæður varðhalds Dahers voru ekki ljósar í upphafi en Sawan yfirheyrði hann í fjórar klukkustundir áður en hann krafðist handtökunnar.
Þegar er hafinn málatilbúnaður gegn 25 manns vegna atburðarins, nítján þeirra eru þegar í haldi. Meðal þeirra eru Hassan Koraytem hafnarstjóri Beirúthafnar, Shafic Merhi, fyrrverandi tollstjóri og Mohammad Al-Awf yfirmaður öryggismála hafnarinnar.
Líbönsk stjórnvöld hafa hafnað alþjóðlegri rannsókn á orsökum sprengingarinnar sem kallað hefur verið eftir, jafnt af hálfu Vesturveldanna sem heimamanna. Þó komu fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) til landsins um helgina í rannsóknarskyni og að beiðni yfirvalda. Frakkar eru sömuleiðis að rannsaka málið á eigin spýtur.
Neyðarástand hefur verið framlengt í borginni til 18. september næstkomandi en því átti upphaflega að aflétta á næstu dögum.