Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skuldir ríkissjóðs aukast um milljarð á dag vegna COVID

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Skuldir ríkissjóðs hafa aukist um rúman milljarð á dag síðan í mars. Fjármálaráðherra segir þjóðarbúið geta orðið af allt að tuttugu milljörðum vegna hertra sóttvarnaraðgerða á landamærunum. Hann útilokar ekki að hlutabótaleiðin verði framlengd. 

Hertar aðgerðir ríkisstjórnarinnar við landamærin taka gildi aðfaranótt miðvikudags. Þá verða öll lönd hættusvæði og allir sem hingað koma þurfa að fara í tvær skimanir með fjögurra til fimm daga sóttkví á milli. 

Fjármálaráðherra segir ljóst að aðgerðirnar muni draga úr ferðavilja, það sé þó erfitt að meta hvað það muni kosta þjóðarbúið. „Það er talið ef það dregur úr komu ferðamanna vegna þessara aðgerða, eins og vænta má, þá geti þjóðartekjurnar fallið um tíu til tuttugu milljarða auðveldlega. En á móti kemur að ef að við þurfum að grípa til harðra ráðstafana eins og á vormánuðum þá sjáum við að neyslan innanlands skreppur mjög hratt saman; um allt að tíu milljarða á mánuði. Þetta er þessi jafnvægislist sem við erum stödd í.“

En ertu sannfærður um að þetta sé best fyrir ríkiskassann þegar allt er talið? „Já, ég held að við höfum gríðarlega mikið að vera með því að tryggja að það sem við erum að gera hér innanlands fari sem minnst úr skorðum.“

Skoða að framlengja úrræði ríkisstjórnarinnar

Ráðherranefnd um ríkisfjármál og ríkisstjórnin ræðir á næstunni hvort framlengja þurfi úrræði til þeirra sem verða fyrir þrengingum vegna faraldursins. Hlutabótaleiðin rennur til að mynda út að óbreyttu um mánaðamótin.

Hvaða aðgerða kemur til greina að framlengja eða grípa til núna? „Það sem hefur verið í umræðunni er það sem tengist hlutabótaleiðinni. Við þurfum að leggja mat á það hvernig hún hefur gagnast,“ segir Bjarni. „Það eru hlutir sem tengjast sóttkvínni, vegna þess að við erum að leggja aukinn þunga á hana. Það er sömuleiðis farið fram á það núna varðandi tekjutengdar atvinnuleysisbætur að það tímabil sé aðeins lengt og augljóst að það geta orðið miklar þrengingar á vinnumarkaði á haustmánuðum,“ segir hann jafnframt. Þá verði lánaúrræði metin.

300 milljarðar í skuldir vegna faraldursins

Bjarni segir að efnahagshorfurnar hafi ekki breyst mikið frá því í byrjun sumars. „Heilt yfir séð verðum við að horfast í augu við það að við erum að verða fyrir gríðarlegu áfalli. Við erum að safna um það bil milljarði á dag í skuldir, í raun og veru rúmlega það; 300 milljörðum á þessu ári frá því að COVID kemur upp. Það horfir ekki til þess að það lagist á næsta ári eða þar næsta.“

Í minnisblaði sem fjármálaráðuneytið birti fyrir helgi segir að það sé mikilvægt sé að skýrt sé við hvaða aðstæður verði hægt að létta á ráðstöfunum við landamærin.  „Það er ekki með það niðurneglt í neinum smáatriðum eftir einhverjum mælikvarða fjölda smita hér eða þróunina annars staðar heldur ætlum að vera í góðu samstarfi við okkar besta fólk hvað varðar skynsemina hvað varðar næstu skref.“