Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skoða notkun sætisbeltis sem stýrisláss í flugslysi

17.08.2020 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rannsókn á flugslysi þar sem einn lést við Haukadalsmela í fyrra beinist meðal annars að notkun sætisbeltis sem stýrisláss. Slíkt getur komið í veg fyrir skemmdir af völdum veðurs á jörðu niðri en hindrar að hægt sé að stýra flugvélinni ef lásinn er ekki fjarlægður fyrir flugtak. 

Piper PA-12 Replica flugvél fórst í flugtaki frá flugvellinum á Haukadalsmelum þann 27. júlí í fyrra. Flugmaðurinn var einn um borð og lést hann af völdum slyssins.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa birti í dag tilkynningu um stöðu málsins, slíkt er alltaf gert þegar ár er liðið frá því að rannsókn hófst. Þar kemur fram að rannsóknin beinist meðal annars að notkun sætisbeltis sem stýrisláss. Á vettvangi mátti sjá að aftari stýrisstöng fyrir hæðar- og hallastýri flugvélarinnar var fest við aftara sæti flugvélarinnar með öryggisbelti sætisins. Stýrislásar eru á mörgum flugvélum. Þeir eru notaðir til að festa stýrisbúnað svo hann skemmist ekki af völdum veðurs á jörðu niðri. Nokkur mannskæð slys hafa orðið vegna þess að stýrislásar hafa ekki verið aftengdir fyrir flugtak. Auk notkunar sætisbeltis sem stýrisláss beinist rannsóknin að undirbúningi flugs og fyrirflugsskoðun auk gátlista og notkunar þeirra. 

Í tilkynningu rannsóknarnefndarinnar segir að sjónarvottar hafi lýst því hvernig flugvélin klifraði mjög bratt í flugtakinu með mikið afl á hreyflinum. Klifurhorn flugvélarinnar hafi haldið áfram að aukast uns hún virtist hanga á hreyflinum. Því næst hafi aflið dregið af hreyflinum, flugvélin fallið niður á hægri vænginn og spunnist einn hring til jarðar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV