Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

SA vilja rökstuðning vegna hertra aðgerða á landamærum

17.08.2020 - 22:14
Mynd: RÚV / RÚV
Samtök atvinnulífsins kalla eftir frekari rökstuðningi á bak við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að herða aðgerðir á landamærunum. Hagfræðiprófessor segir hertar aðgerðir skref í rétta átt.

Reglur um að allir sem komi til Íslands fari í tvær skimanir og fjögurra til fimm daga sóttkví á milli taka gildi aðfaranótt miðvikudags. Það er leiðin sem sóttvarnarlæknir hafði sérstaklega mælt með af þeim níu valmöguleikum sem hann hafði kynnt fyrir stjórnvöldum að kæmu til greina.

Vantar tölulegan útreikning eða sviðsmyndagreiningu

Ásdís Krist­jáns­dótt­ir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir samtökin kalla eftir því að stjórnvöld leggi fram ítarlegra rökstuðning fyrir ákvörðuninni. 

Fjármálaráðuneytið birti minnisblað um umfang sóttvarnaaðgerða á landamærunum eftir að aðgerðirnar voru kynntar. Ásdís segir að þar séu ákveðnar vangaveltur settar fram en ekki tölulegur útreikningur eða sviðsmyndagreining á því hvers vegna þessi leið sé farin en ekki aðrar leiðir sem eru nefndar í minnisblaði sóttvarnarlæknis. 

Hagfræðingur segir hertar reglur til bóta

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sem hefur áður sagt að opin landamæri væri mikil fórn fyrir lítinn ábata, segir að hertar aðgerðir séu til góðs. „Ég held að þessar breytingar séu til bóta. Færir okkur að meiri efnahagslegum ávinningi þó að vissulega verði þetta erfitt fyrir marga.“

Hún nefnir þó að til þess að auka hagkvæmni ætti verðið á skimun fyrir farþega að vera hærra. „En í það heila var þetta skref í rétta átt,“ segir Tinna.