Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Nýnemadagar í HA verða rafrænir í ár

17.08.2020 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Nýnemadagar Háskólans á Akureyri verða rafrænir í ár vegna COVID-19. Nýnemar munu því ekki mæta á staðinn eins og venja er heldur fá þeir rafrænar móttökur í gegnum fjarfundabúnað. 

Í tilkynningu frá skólanum segir mikilvægt að nemendur mæti rafrænt enda sýni reynslan að þátttaka á nýnemadögum auðveldi stúdentum að hefja nám. „Það er því mikilvægt að nýnemar mæti rafrænt og taki þátt í dagskrá þessara daga þar sem þeim gefst tækifæri á að kynnast starfsfólki, þjónustu háskólans í upphafi náms, t.a.m. tölvukerfi, bókasafni, námsráðgjöf, alþjóðasamstarfi, húsnæði o.fl.“.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri segir það sveigjanlega námsfyrirkomulag sem HA hafi byggt um og þróað síðustu tuttugu ár gera það að verkum að hægt verði að halda úti allri kennslu og starfsemi þrátt fyrir þær takmarkanir sem séu í gildi hverju sinni. 

„Skólastarf á haustmisseri er skipulagt með þeim hætti að samkomutakmarkanir muni hafa sem minnst áhrif á námið. Einu breytingarnar sem stúdentar gætu átt von á er fyrirkomulag námslota sem í einhverjum tilvikum gætu færst yfir í rafræn form.“ segir í tilkynningu frá skólanum.