Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nokkur þúsund sóknarbörn í sóttkví í Suður-Kóreu

17.08.2020 - 05:50
epa08608356 A restaurant employee wearing a face mask walks around Namdaemun market in Seoul, South Korea, 17 August 2020.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa beðið nokkur þúsund sóknarbörn kirkju í Seúl um að halda sig í sóttkví. Yfirvöld berjast nú við að halda annarri bylgju faraldursins í skefjum. Faraldurinn herjar nú helst á höfuðborgarsvæðið, þar sem nærri helmingur allra íbúa Suður-Kóreu býr. 

Þegar er búið að banna allar trúarsamkomur og fólk beðið um að forðast óþörf ferðalög. 197 kórónuveirusmit greindust í landinu í gær, og eru þau nú samanlagt rúmlega 15.500. Þetta var fjórði dagurinn í röð þar sem fjöldi smitaðra nær þriggja stafa tölu, eftir að hafa verið á milli 30 og 50 í margar vikur. 

Mörg smit hafa verið rakin til Sarang Jeil kirkjunnar í Seúl. Henni er stjórnað af íhaldssömum presti sem hefur haldið sig fremst í flokki mótmælenda gegn aðgerðum stjórnar forsetans Moon Jae-in. Alls eru rúmlega þrjú hundruð smit rakin til kirkjunnar, og um 3.400 sóknarbörn beðin um að halda sig í sóttkví. 

Fyrri bylgju faraldursins í Suður-Kóreu mátti einnig rekja til safnaðar sunnar í landinu. Alls var hægt að rekja fimm þúsund smit til hans, eða um þriðjung allra jákvæðra sýna í landinu. Leiðtogi safnaðarins var handtekinn fyrr í þessum mánuði, grunaður um að hafa fært yfirvöldum ónákvæma skýrslu um samkomur safnaðarins og rangan lista yfir sóknarbörn.