Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Líklegt að kærumálum fjölgi með lögunum

Mynd með færslu
Jafnfréttisstofa á að vinna gegn neikvæðum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla, sem og neikvæðum staðalímyndum byggðum á kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.  Mynd: Vigdís Diljá Óskarsdóttir - RÚV
Líklegt er að kærumálum til kærunefndar jafnréttismála fjölgi umtalsvert að mati Samtaka íslenskra sveitarfélaga fái frumvarp forsætisráðherra um lög til stjórnsýslu jafnréttismála samþykki þingsins.

Frumvarpið var til umsagnar á Samráðsgáttinni í sumar og á að ná yfir það svið sem löggjöf um jafnréttismál tekur til og er þar átt við mál er varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

14 umsagnir bárust um frumvarpið og í flestum þeirra, m.a. þeim sem bárust frá Mannréttindaskrifstofu, Kvenréttindafélagi Íslands og Þroskahjálp, er bent á að Jafnréttisstofa ráði með núverandi fjárframlögum og mannskap engan veginn við það hlutverk sem henni er ætlað samkvæmt frumvarpinu.

Á fylgjast með þróun, vinna að fornvörnum og leita sátta

Samkvæmt frumvarpinu er Jafnréttisstofu ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála og veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála.

Henni er einnig ætlað að koma ábendingum og tillögum um aðgerðir til að stuðla að auknu jafnrétti á framfæri við ráðherra og önnur stjórnvöld, hvetja til virkar þátttöku á sviði jafnréttismála, fylgjast með þróun jafnréttismála í samfélaginu, vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni og vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á vinnumarkaði.

Eins á Jafnréttisstofa að leita sátta í ágreiningsmálum sem henni berast og varða ákvæði laganna, vinna gegn neikvæðum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla, sem og neikvæðum staðalímyndum byggðum á kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Loks á Jafnréttisstofa að hafa umsjón með umsýslu jafnlaunavottunnar og jafnlaunastaðfestingar og vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

Lykilatriði að Jafnréttisstofa fá nauðsynlegt fjármagn

Segir Reykjavíkurborg í umsögn sinni það vera lykilatriði að Jafnréttisstofu verði veitt fjármagn og mannafli til að sinna verkefnunum með sóma og Kvennréttindasamtök Íslands efast um að Jafnréttisstofa hafi burði til þess að sinna öllum þeim lögbundnu verkefnum sem henni er skylt að framkvæma.

Samband íslenskra sveitarfélaga bendir líka á þetta ójafnvægi í umsögn sinni, en ólíkt öðrum umsagnaraðilum leggur sambandið ekki til aukin fjárframlög. Þess í stað leggur það til að dregið verði úr formlegu eftirlitshlutverki stofnunarinnar og frekar lögð áhersla á að hún framfylgi aðgerðaráætlun í jafnréttismálum á hverjum tíma og að skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneyti verði þess í stað fengið það hlutverk að sinna eftirlitinu.

Félagasamtök geta kært í eigin nafni

Samtökin telja einnig að með því að heimila félagasamtökum að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála í eigin nafni telji þau jafnréttislög hafa verið brotin og að umtalsverður hluti félagsmanna sinna eigi lögvarða hagsmuni að gæta,  líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir, verði að telja líklegt að kærumálum fjölgi umtalsvert.

„Þessi breyting er líkleg til þess að fjölga kærumálum umtalsvert, ekki síst þegar horft er til nýlegrar löggjafar um bann við mismunun,“ segir í umsögn samtakanna. Skýrt þurfi að vera hvernig standa eigi að málatilbúnaði við þessar aðstæður, svo þau mál sem vísað er til kærunefndar séu nægilega vel reifuð og varði skýrt afmörkuð tilvik.