Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hallandi staur olli falskri viðvörun um hlaup

17.08.2020 - 07:45
Skáli og mælitæki Jöklarannsóknarfélags Íslands ´á Grímsfjalli. Grímsvötn í baksýn. Sólsetur. Júní 20250.
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Snjór sem bráðnaði umhverfis staur tengdan GPS-mæli sem á að gefa vísbendingar um mögulegt hlaup olli því að staurinn fór að halla. Vakti það grunsemdir um að hlaup væri að hefjast í Grímsvötnum vegna landsigs. Jarðeðlisfræðingur Almannavarna, sérfræðingur Veðurstofu Íslands og sérfræðingar Landhelgisgæslunnar komust að þessu í eftirlitsferð á Grímsfjalli í gær. Um falska viðvörun var að ræða.

Morgunblaðið greinir frá. GPS-mælirinn hækkaði aftur á ný í fyrradag og því er ekki talið að um vísbendingar um upphaf hlaups sé að ræða.

Hópurinn lagaði búnaðinn, meðal annars vefmyndavél, og brátt verður hægt að sjá vefmyndir af svæðinu á opnum vef. 

Nú er því stærsta áhyggjuefnið mögulegt gos í Grímsvötnum, en skyndilegur þrýstingsléttir vegna jökulhlaups getur hleypt gosi af stað, segir náttúruvársérfræðingurinn Einar Hjörleifsson hjá Veðurstofunni við Morgunblaðið.

Áfram verður fylgst grannt með gangi mála og er áætlað að hópur frá Veðurstofu Íslands fari aftur að Grímsvötnum á þriðjudag.

Leiðrétt kl. 10:45 - Upphaflega var sagt að GPS-mælirinn hefði mælt landris þegar hann tók að halla, en hið rétt er að landsig virtist hafa orðið.