Hafa skimað yfir 3.000 manns á dag þegar mest er

17.08.2020 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðbúið er að álag á skimun aukist mikið þegar tekin verður upp tvöföld skimun á alla sem koma til landsins á miðvikudag en það ætti að vera viðráðanlegt sögðu Páll Þórhallsson, verkefnastjóri hjá forsætisráðuneytinu, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þó getur farið svo að dreifa þurfi álagi til að vinnan gangi sem best.

„Fjöldi þeirra sem hefur verið skimaður hefur farið vaxandi á undanförnum dögum og hafa sýni frá allt að 3.200 einstaklingum verið tekin á degi hverjum,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. Það er töluvert meira en sú tvö þúsund manna skimunargeta sem kynnt var í upphafi. Þetta hefur valdið miklu álagi á veirufræðideild Landspítalans, sagði Þórólfur.

Sóttvarnalæknir sagði yfirvöld hafa lært ýmislegt af skimuninni. Meðal annars að flest smit uppgötvast við komuna til landsins. Þó hafa sex greinst með veikina í seinni skimun eftir að hafa greinst neikvæðir í landamæraskimun. Það er 0,04 prósent skimaðra. „Það má segja það að sýnataka tvö er nauðsynleg til að lágmarka frekar smit hingað til lands.“ Þá hafi komið í ljós að fólk frá áhættusvæðum hafi smyglað sér framhjá skimun með því að gefa upp örugg lönd sem síðasta dvalarstað þótt svo fólk hafi aðeins verið þar í skamma stund. Að auki sé veiran í vexti á heimsvísu. Því væri sú leið að skima alla sú líklegasta til árangurs í ljósi reynslunnar, sagði Þórólfur.

Páll Þórhallsson, verkefnastjóri hjá forsætisráðuneytinu, sagði að kerfið ætti að ráða við skimun, með aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar. „Þó kunni að koma til þess að dreifa þurfi álagi yfir daginn. Það er ekki gott ef allar flugvélarnar eru meira og minna að lenda á sama tíma. Þá leiðir það til þess að farþegar þurfa að bíða lengur eftir skimun.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi