Fresta hlutafjárútboði fram í september

17.08.2020 - 23:14
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair
 Mynd: RÚV/Guðmundur Bergkvist
Icelandair Group hefur frestað hlutafjárútboði félagsins og nú er stefnt að því að útboðið fari fram í september en ekki ágúst.

Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í kvöld kemur fram að breytingin sé gerð með fyrirvara um að hluthafar samþykki að framlengja heimild félagsins til hlutafjáraukningar. Heimild sem var veitt á hluthafafundi þann 22. maí síðastliðinn rennur út 1. september. Félagið boðar til nýs fundar á næstu dögum. 

Þá kemur fram að félagið leggi til við hluthafa að stjórn félagsins verði heimilt að ákveða að nýjum hlutum í félaginu fylgi áskriftarréttindi sem samsvara allt að 25 prósentum af skráningu nýrra hluta í fyrirhuguðu útboði. Hluthöfum yrði heimilt að nota réttindin í einu lagi eða í skrefum á tveggja ára tímabili frá útgáfu, samkvæmt settum skilyrðum. 

Félagið stefnir að því að selja nýja hluti fyrir 20 milljarða króna að nafnvirði og í tilkynningunni kemur fram að stjórn félagsins hafi heimild til að auka hlutafé um 3 milljarða ef til umframeftirspurnar kemur.  

Að lokum segir að viðræður við íslensk stjórnvöld um lánalínur með ríkisábyrgð, í samvinnu við Íslandsbanka og Landsbankann, séu nú á lokastigi. Ef stjórnvöld samþykki lánalínuna birti félagið fjárfestakynningu á næstu dögum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi