Í október árið 2012 fór fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem voru greidd atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Stjórnlagaráð hafði verið skipað til að undirbúa frumvarp að endurbættri stjórnarskrá sem var afhent forseta Alþingis í júlí 2011. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni var svo kosið um hvort Alþingi ætti að leggja þær tillögur til grundvallar í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá auk þess sem spurt var nánar um náttúruauðlindir, þjóðkirkju, persónukjör, atkvæðavægi og þjóðaratkvæðagreiðslur. Kosningaþátttaka var 48,9% en 115.980 greiddu atkvæði. 64,2% greiddu atkvæði með því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá en 31,7% greiddu gegn því.