Finnst skrítið að það séu ekki allir brjálaðir

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnhildur Fríða

Finnst skrítið að það séu ekki allir brjálaðir

17.08.2020 - 15:48
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum undanfarið þar sem hún hefur kynnt það frumvarp að stjórnarskrá sem lagt var fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Hún segir mikilvægt að fræða ungu kynslóðina og er hissa á því að það séu ekki allir brjálaðir.

Í október árið 2012 fór fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem voru greidd atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Stjórnlagaráð hafði verið skipað til að undirbúa frumvarp að endurbættri stjórnarskrá sem var afhent forseta Alþingis í júlí 2011. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni var svo kosið um hvort Alþingi ætti að leggja þær tillögur til grundvallar í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá auk þess sem spurt var nánar um náttúruauðlindir, þjóðkirkju, persónukjör, atkvæðavægi og þjóðaratkvæðagreiðslur. Kosningaþátttaka var 48,9% en 115.980 greiddu atkvæði. 64,2% greiddu atkvæði með því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá en 31,7% greiddu gegn því. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands tók gildi við stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944.

Gunnhildur segir aðal ástæðuna fyrir því að hún fór út í baráttuna fyrir nýju stjórnarskránni vera sterka réttlætiskennd og náttúrusjónarmið. „Þegar maður fer út í þetta þá er ljóst að það er verið að ræna okkur arði, við fáum ekki að njóta góðs af auðlindum landsins og það ergir mig svolítið mikið.“ Sjálf var hún 10 ára þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram og segist hafa þurft að fræða sig um það sem gerðist. „Vinir mínir vissu heldur ekkert og mér fannst þörf fyrir því að kynna þetta fyrir fólki á mínum aldri,“ bætir hún við. Hún ákvað því að prófa að fjalla um málið á Tik Tok, það gekk vel og undirtektirnar voru góðar.

Ef alþingismenn eru her á tiktok, taggið þá hahaha ##fyp ##politics ##iceland ##islenskt

♬ original sound - guggarugga

Hún og Ósk Elfarsdóttir ákváðu svo að stofna Instagram-síðu þar sem þær birta ýmiss konar upplýsingar og fræðslu um stjórnarskrána en Ósk er nýútskrifaður lögfræðingur og fjallaði einmitt um stjórnarskrána í meistararitgerð sinni. Gunnhildur segir þær báðar hafa verið pirraðar vegna stjórnarskrárinnar í sínu eigin horni en ákváðu að fara að vinna saman þegar þær loksins hittust. 

Gunnhildur segir viðbrögðin, bæði á Tik Tok og Instagram, hafa verið mjög góð. Margir segjast ekki hafa vitað neitt um málið fyrr en núna, mörg þúsund manns hafa horft á myndböndin á Tik Tok, fleiri eru farnir að gera myndbönd um nýju stjórnarskrána, Instagram-reikningurinn er kominn með rúmlega 2300 fylgjendur og 13 þúsund undirskriftum hefur verið safnað. 

„Ég er orðin þekkt á djamminu sem gellan með nýju stjórnarskrána,“ bætir hún við og hlær. 

Mestur tími hjá Gunnhildi fer í rannsóknarvinnu fyrir myndböndin. Þegar hún fjallaði um sjávarútveginn hitti hún til að mynda hagfræðing þar sem málefni sjávarútvegs geta verið flókin. „Þetta ætti samt ekki að vera svona flókið og svona upplýsingar ættu að vera aðgengilegri,“ bætir hún við.

Myndband hennar þar sem hún hringir og ræðir við alþingismenn hefur líka vakið talsverða athygli en þar segir Gunnhildur fólk aðallega hafa verið hissa á því að einhverjir þingmenn tækju persónulega skoðun fram yfir vilja þjóðarinnar. „Þeim [þingmönnunum] var bara öllum pínu sama, mér fannst þeir ekki fatta að þetta er hluti af okkar sjálfstæðisbaráttu og snýst um að gera Ísland að nútímalýðræði þar sem spilling viðgengst ekki,“ bætir hún við.

Er ekki að hvetja til neins, en símanúmer þingmanna eru á alþingissíðunni ##nyjastjornarskrain ##islenskt ##fyp

♬ original sound - guggarugga

Gunnhildur segist vona að með myndböndunum og fræðslunni verði stuðlað að vitundarvakningu meðal ungu kynslóðarinnar. Á sama tíma sjái hún og Ósk fram á að minnsta kosti fjögurra ára baráttu áður en einhverjar breytingar eigi sér stað. „Nema ef Alþingi vakni loksins og fari réttum megin fram úr rúminu,“ bætir hún við.