Færeyjar skyldu fara að dæmi Íslands við skimun

17.08.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað nokkuð í Færeyjum undanfarnar vikur. Ferðafólki hefur ekki verið skipað í sóttkví meðan beðið er niðurstöðu síðari skimunar.

Þarlendur læknir Marnar Fríðheim Kristiansen, segir í samtali við Kringvarp Færeyja að þarlend yfirvöld skyldu fara sömu leið og Íslendingar og skipa ferðalöngum til landsins í sóttkví, uns niðurstöður síðari skimunar liggi fyrir.

Frá og með næsta miðvikudegi eiga allir ferðamenn, innlendir sem erlendir, sem koma til Íslands að fara í sóttkví þar til niðurstaða síðari skimunar liggur fyrir. Það getur tekið fjóra til sex daga. Reynist ferðamaður jákvæður tekur við einangrunarsóttkví.

Kristiansen segir að um þrjátíu þúsund hafi verið skimuð eftir að kórónuveiran tók að geisa að nýju. Hann óttast að það mikla eftirlit geti verið unnið fyrir gýg verði ekki gætt sérstaklega þeim sem koma um landamærin.

Sömuleiðis sé ekki háannatími hjá ferðaþjónustunni og því ætti að vera hægur vandi að senda ferðamenn í sóttkví þar til niðurstöður skimunar liggi endanlega fyrir.

Um helgina var tvennt lagt inn á sjúkrahús í Færeyjum með Covid-19 að sögn Tummas í Garði, aðstoðarforstjóra faglækninga við Landssjúkrahúsið. Annar sjúklinganna liggur á gjörgæsludeild.

Verið er að setja upp sérstaka kórónuveirudeild í byggingu utan við sjúkrahúsið sjálft en hún verður ekki tilbúin fyrr en eftir hálfan mánuð.

 

Nu eru 144 virk Covid-19 smit í Færeyjum, yfir 700 eru í sóttkví, en heldur hefur dregið úr fjölgun smita undanfarna daga. 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi