Ekki að brjóta lög en hefði mátt passa fjarlægðarreglu

17.08.2020 - 14:52
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hefði kannski mátt passa betur upp á tveggja metra regluna þegar hún hitti vinkonur sínar um helgina. Honum sýnist hins vegar að hún hafi ekki brotið lög og reglur.

Myndir af ráðherranum með vinkonum sínum vöktu mikla athygli um helgina og umtal um að tveggja metra reglan væri ekki í hávegum höfð.

Þórólfur sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í dag að síðasta auglýsing um tveggja metra regluna hefði ekki endilega tekið á því að fólk deildi saman heimili heldur sneri krafan að því að rekstraraðilar tryggðu því að fólk gæti farið eftir tveggja metra reglunni.

„Síðan er það náttúrulega á ábyrgð hvers einstaklings að halda þessa tveggja metra reglu eða ekki.“ Þórólfur sagðist ekki geta fjallað nánar um tilfelli ráðherrans en sagði fólk yrði að bera ábyrgð á sínum athöfnum. „Tveggja metra reglan á aðallega við umgengni við einstaklinga sem maður þekkir engin deili á og passa sig í fjölmenni. Það getur vissulega þurft að taka tillit til þeirra í annarri umgengni líka. Ég held að það hefði kannski verið heppilegra að passa vel upp á tveggja metra regluna en þetta sýnir að við þurfum að vera sveigjanleg og umburðarlynd. Við höfum verið að tala um umburðarlyndi í þessu tilliti líka. Ég held að hún hafi ekki verið að brjóta lögin eins og þau segja nákvæmlega fyrir um en vissulega hefði kannski mátt passa betur upp á tveggja metra regluna þarna.“

Þórólfur sagði að hver og einn yrði að ákveða hvernig hann ætlaði að umgangast vini og fjölskyldu. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var einnig spurður út í þetta. „Ég held að almennt þá stöndum við frammi fyrir sömu áskorunum. Við þurfum öll að standa okkur og auðvitað þurfum við sem erum í framlínunni að vera fyrirmyndir,“ sagði Víðir. Hann sagði að fólk yrði að vera reiðubúið að taka gagnrýni og bæta sig en um leið þyrfti fólk að setja gagnrýni fram á hófsaman hátt og án mikilla upphrópana.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi