Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekkert mál að verða ástfanginn af einstaklingi á rófinu

Mynd: Netflix / Netflix

Ekkert mál að verða ástfanginn af einstaklingi á rófinu

17.08.2020 - 09:18

Höfundar

„Ef þið eruð hrifin af einhverjum á rófinu megið þið hjálpa þeim stundum að fatta hvað þau þurfa,“ segir Elín Sigurðardóttir námsmaður. Hún horfði á þættina Love on the spectrum á Netflix og segir þættina góða en ekki endurspegla raunveruleikann fyllilega. Til dæmis sé ekkert sem standi í vegi fyrir að manneskja með einhverfu, eins og hún sjálf, eigi í farsælu ástarsambandi með aðila sem ekki er á rófinu.

Í sumar frumsýndi streymisveitan Netflix nýja raunveruleikaþætti sem nefnast Love on the spectrum, eða Ást á rófinu, og hafa þeir sannarlega slegið í gegn. Þættirnir fylgja nokkrum einstaklingum sem eru að leita að ástinni en eiga það einnig sameiginlegt að vera öll á einhverfurófinu. Þeir hafa vakið umtal og notið gífurlegra vinsælda, meðal annars vegna þess hve einlægar persónurnar þáttanna þykja en þau virðast óhrædd við að vera þau sjálf og „óraunverulega raunveruleg“ sem ekki virðist oft lenskan í nútíma raunveruleikasjónvarpi. Við fylgjumst með hverjum einstaklingi við líf og dagleg störf, komumst að því hvað þeim líkar vel við og hvað þau þola illa og fylgjum þeim á fund stefnumótaráðgjafa sem finnur fyrir þau annan aðila, sem einnig er á rófinu, til að fara með þeim á stefnumót.

Krúttlegheitin í vandræðaganginum

Stefnumótin felast oft í að fara á kaffihús, veitingastað, hittast í dýragarðinum eða fara í rómantíska gönguferð en áður en það er gert er farið yfir nokkra lykilþætti í stefnumótaundirbúningi og hvernig sé best að bera sig til að halda samskiptaboltanum rúllandi og vonandi heilla hinn aðilann. Ástarfundirnir ganga stundum brösuglega, samtölin verða stirð á köflum, spurningarnar of margar eða þögnin þrúgandi en í nokkrum tilfellum ganga stefnumótin vel og þá er skipst á símanúmerum. Meðan á öllu þessu stendur er leikin hugljúf og allt að því barnaleg tónlist undir til að undirstrika krúttlegheitin í vandræðaganginum.

Kanadíski rithöfundurinn Sarah Kurchak, sem sjálf er með einhverfu, hefur gagnrýnt krúttlegheitin sem lögð er áhersla á í þættinum með bæði kvikmyndatöku og tónlistarvali. Sarah, sem er höfundur bókarinnar How I overcame my autism and all I got was this lousy anxiety disorder, segir framleiðsluatriði ýta sérstaklega undir hvað allt sé dúllulegt og sætt og segist efast um að slíkt væri gert væru þetta hefðbundnir raunveruleikaþættir um ungt fólk á stefnumótum. Einnig veltir hún fyrir sér hvort nærmyndir af sérkennilegu fatavali fólks væru teknar ef það væri ekki einhverft og hvort upptalning á því sem karakterum líkar vel og illa við, sem kemur fram þegar þau eru kynnt til leiks, sé upplýsandi eða barngerandi.

Mikil orka fer í að standa á eigin fótum

Elín Sigurðardóttir er 29 ára námsmaður sem er alin upp í Grundarfirði. Hún er sjálf með einhverfu og segir langþreyttan misskilning að fólk með einhverfu upplifi ekki tilfinningar með sama hætti og aðrir. Hún segir þáttunum takast vel að hrekja þá staðhæfingu en bendir á að söguhetjurnar séu samt þrátt fyrir allt nokkuð einsleitur hópur og reynsla þeirra endurspegli ekki endilega raunveruleika einhverfs fólks á Íslandi. „Þetta er rosalega ungt fólk, ekkert miðaldra konur að deita, heldur allt einhverfir krakkar með rosalega gott stuðningsnet,“ segir Elín. „Þetta fólk býr hjá foreldrum sínum og hefur andlegt frelsi og andlega orku til að sinna sínum áhugamálum.“

Hún segir fólk með einhverfu á Íslandi oft þurfa að vinna mikið og öfugt við vonbiðlana í þáttunum hafi þau lítið andrými til að njóta sín á kaffihúsum og leita að ástinni því það fari mikil orka í að standa á eigin fótum. „Mikið af krökkum á Íslandi vinna fulla vinnu en restin af tímanum fer bara í að anda. Flestir sem ég þekki eiga erfitt með að halda fjörutíu tíma vinnuviku og helgin fer bara í að anda fyrir næstu viku.“

„Ég sá sársaukann“

Þó stefnumótin gangi stundum ágætlega eru aðstæður líka oft áþreifanlega þrúgandi fyrir einstaklingana. Elín minnist á eitt tilvik þar sem hinn ofurrómantíski Michael býður stúlku að hitta sig á fínum veitingastað. Þau setjast við borð úti á miðju gólfi og Michael spyr hana spjörunum úr þar til hún stendur upp, biður hann að hafa sig afsakaða og fer út í horn þar sem hún tilkynnir framleiðendum þáttanna að sér líði illa og vilji fara. Elín fann mikið til með bæði Michael og stúlkunni enda geti aðstæður sem þessar verið verulega óþægilegar fyrir manneskju með einhverfu. „Þegar ég fer á veitingastað þarf ég alltaf að fara út í horn svo ég geti séð hvar ég er. En ef ég sit úti á miðju gólfi, guð minn góður, mér líður eins og ég sé á ís sem sé að fara að brotna. Algjört óöryggi,“ segir hún. Ekki bæti úr skák að á staðnum séu bæði ljós og myndbandsupptökuvélar. „Stelpan endar á að fara út í horn því þetta var of mikið fyrir hana og ég gat lesið aðstæður öðruvísi en margir aðrir. Ég sá sársaukann.“

Erfitt að treysta þegar maður er vanur mótlæti

Hún segir einnig hafa verið erfitt að sjá hvernig margir voru í mikilli vörn og töluðu sjálfa sig niður. Einn ungi maðurinn hafi til dæmis endurtekið við sjálfan sig: „Ekki vera hálfviti,“ þegar hann óttaðist að misstíga sig í samskiptum. Elínu þótti sárt að sjá það en kannast við slíkar hugsanir. „Við tölum svona við okkur því við erum svo vön því að lenda í slæmum málum. Þetta er rosalega erfitt,“ segir hún.

Hún minnist þess einnig þegar ein konan fer á stefnumót í þættinum og dansar við mann sem er spenntur fyrir henni og dansar á móti. Þá bregst hún illa við og segir honum að hætta að gera grín að sér, þó áhorfandinn sjái vel að hann var ekki að því heldur raunverulega að reyna að heilla hana. „Hún fór í svo mikla sjálfsvörn. Ég kannast svo við það sem kona á rófinu að fara í sjálfsvörn því maður er í svo miklu mótlæti allt lífið. Þá er erfitt að treysta og vera öruggur í kringum einhvern.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarney Lúðvíksdóttir - Að sjá hið ósýnilega
Elín segir algengt að fólk á rófinu sé í sambandi með aðila sem ekki sé með einhverfu

„Stundum er gott að fá knús“

Elín var í heildina nokkuð hrifin af þáttunum og segir þá skemmtilega. „Ég elskaði hvernig þau sýndu hvað þau eru miklir nördar því fokk itt - nördar eru bara besta fólk í heimi,“ segir hún glettin. Í þáttunum eru einstaklingarnir allir paraðir saman með annarri manneskju á rófinu en Elín segir að það endurspegli ekki raunveruleikann. „Það er algengt að fólk sé í sambandi með fólki sem er ekki einhverft. Það sem fólki finnst til dæmis svo æðislegt við okkur er að við erum ofboðslega ástríðufull varðandi verkefni,“ segir hún. „Svo er það sem er ekki endilega kækir heldur persónueinkenni sem fólk verður ástfangið af. Ef einhver til dæmis fitjar upp á nefið og eða hreyfir sig á ákveðinn hátt þegar hann er spenntur þá er það rosalega sætt og það er gaman að sjá það og gaman að gleðjast.“

Hún segir því alls ekkert því til fyrirstöðu að tveir einstaklingar geti náð vel saman og átt í farsælu ástarsambandi þó aðeins annar aðilinn sé á rófinu. „Ég held að fólk sem er ekki á rófinu fái rosalega mikið út úr því,“ segir hún. „Hver verður ekki ástfanginn af einhverjum með ofboðslega hreint hjarta og karakter sem kemur eins fram og hann er, og sýnir alltaf þegar hann er ánægður?“ Mikilvægast í slíku sambandi, eins og öllum öðrum, sé einfaldlega að hlúa að hvort öðru. „Við gefum miklu meira frá okkur en við þurfum til baka, við erum vön að sjá um okkur sjálf en stundum er gott að fá knús. Ef þið eruð hrifin af einhverjum á rófinu megið þið hjálpa þeim stundum að fatta hvað þau þurfa,“ segir hún að lokum.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Elínu Sigurðardóttur í Tengivagninum á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Myndlist

„Okkur var boðið kampavín, svo fóru þau úr herberginu“

Menningarefni

„Þá fyrst fattaði ég að Ísold væri fyrirsæta“

Menningarefni

Það eina sem fer í gegnum hugann er „ekki deyja“