Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dauði hana ýtir undir löggjöf til verndar sveitalífi

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Yfir 74 þúsund undirskriftir hafa safnast þar sem sem kallað er eftir viðbrögðum við snemmbúnum dauðdaga franska hanans Marcel. Söfnuninni er beint að fyrrverandi landbúnaðarráðherra og dýraverndunarsamtökum ýmsum.

Nágranni eiganda Marcels gafst upp á galinu í hananum og skaut hann til bana í maí síðastliðnum. Sebastian Verney, íbúi í bænum Vinzieux í suðurhluta Frakklands átti Marcel.

Honum var mjög brugðið yfir viðbrögðum nágrannans og hið sama á við um fjölda fólks. Að hans mati verður sveitalífið í Frakklandi fyrir stöðugum árásum sem látnar séu óátaldar. Nágranninn er þó ákærður fyrir dýraníð, ólöglegan vopnaburð og fleiri lögbrot. Búist er við að réttað verði yfir honum í desember næstkomandi.

Ljúfur og barnelskur hani

Í undirskriftasöfnuninni er Marcel heitnum lýst sem ljúfum fugli og verndara heimilis Verney-fjölskyldunnar. Hann þótti barnelskur og er sagður hafa fyllt hversdagslífið gleði, ekki síst með galinu góða.

Á síðasta ári úrskurðuðu dómarar að öðrum hana væri fullkomlega heimilt að hefja daginn með því að hefja upp raust sína. Sú niðurstaða fékkst eftir harðar nágrannadeilur sem lyktaði þó ekki með dauða þess hana. Hann dó af náttúrulegum orsökum um svipað leyti og Marcel.

Það mál varð til þess að frumvarp var lagt fyrir franska þingið sem leyfir eðlileg dýrahljóð og -lykt í dreifðum byggðum Frakklands. Hani er óopinbert kennimerki Frakklands, eins og sjá má í merkjum rúbbí- og knattspyrnulandsliðanna.