Tjaldgestir færðir vegna vatnavaxta

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Lögreglan á Norðurlandi eystra ákvað laust eftir miðnætti að rýma tjaldstæðið í Herðubreiðarlindum vegna vatnavaxta í Jökulsá á Fjöllum og Kreppu. Sameiginlegt rennsli ánna var komið upp fyrir 600 rúmmetra á sekúndu samkvæmt mælingum Veðurstofunnar. Mikil hlýindi eru á hálendinu og vatnavextirnir til komnir vegna bráðnunar.

Lögreglan segir á Facebook að ákvörðunin hafi verið tekin þar sem óljóst er hversu mikið varnargarðurinn ofan við Herðubreiðarlindir þolir. Eins var þjóðvegi F88 frá hringveginum og þjóðvegi F910, Austurleið, lokað á meðan þetta ástand varir. Aðstæður verða skoðaðar nánar í dag og fylgjast bæði lögreglan og Veðurstofan með rennsli ánna. 

Um þrjátíu gestir voru á tjaldstæðinu þegar lögreglan lokaði því, og fóru þeir upp í Drekagil við Öskju.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi