Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þetta gekk vel!

Flaug Skyrora skotið á loft 16.8.2020
 Mynd: Örlygur Hnefill Örlygsson - Ljósmynd
„Þetta gekk vel!“ Þetta sagði Atli Þór Fanndal hjá Geimvísinda- og tækniskrifstofunni eftir að eldflaug skoska fyrirtækisins Skyrora var skotið frá Langanesi um klukkan tíu í morgun. Ráðgert hafði verið að skjóta flauginni á loft í gærmorgun, en það var ekki hægt sökum veðurs. Atli segir að þetta sé fyrsta eldflaugaskotið héðan í hálfa öld.

Flauginni var skotið upp í tveimur hlutum, eða stigum, með nokkurra sekúndna millibili og var allnokkur hópur fólks á staðnum að fylgjast með.  Fyrra stigið fór í 6 kílómetra hæð og það síðara í 30 kílómetra hæð.  Báðir hlutarnir lenda síðan í sjó skammt undan landi, í þeim er staðsetningarbúnaður og að sögn Atla er björgunarsveitin á staðnum farin til að sækja þá.

Skyrora hefur lýst sér sem Uber geimiðnaðarins, en það þróar og smíðar eldflaugar sem ætlað er að ferja gervihnetti út í geim. Skotið í morgun var tilraunaskot og liður í prófunum.

Atli segir að þetta hafi talsverða þýðingu. „Núna hefur þetta tekist og við höfum þar með farið í gegnum allt ferli sem þarf til eldflaugaskota á Íslandi. Þetta er mjög stórt skref því nú höfum við getu til að veita heimildir til eldflaugaskota. Markmiðið er að sjálfsögðu geimskot.“