Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sevilla í úrslit eftir sigur á Man. United

epa08608244 Luuk de Jong of Sevilla celebrates scoring the 2-1 during the UEFA Europa League semi final match between Sevilla FC and Manchester United in Cologne, Germany, 16 August 2020.  EPA-EFE/Ina Fassbender / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL

Sevilla í úrslit eftir sigur á Man. United

16.08.2020 - 20:57
Spænska liðið Sevilla komst í kvöld í úrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta í sjötta sinn eftir 2-1 sigur á Manchester United í Köln í Þýskalandi. United-liðinu refsaðist fyrir færanýtingu sína í leiknum.

Manchester United kom inn í leikinn eftir strembna viðureign við danska liðið F.C. Kaupmannahöfn í vikunni þar sem framlengja þurfti áður en Bruno Fernandes skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu.

Leikur kvöldsins byrjaði á keimlíkum nótum. United-liðið hóf leikinn af miklum krafti og uppskar vítaspyrnu snemma leiks þegar Diego Carlos gerðist brotlegur á Marcus Rashford innan teigs. Fernandes steig á punktinn líkt og fyrri daginn og skoraði af fádæma öryggi á níundu mínútu.

1-0 stóð fram á 26. mínútu þegar Sevilla átti laglega sókn sem lauk með sendingu bakvarðarins Sergio Reguilon á hægri vængmanninn Suso sem afgreiddi boltann fram hjá David De Gea í marki United. Staðan var því 1-1 þegar hálfleiksflautið gall.

Heilt yfir var Sevilla töluvert meira með boltann en United í leiknum en færin lætu þó á sér standa fyrir þá spænsku þar sem marktilraunir þeirra mætti telja á fingrum annarrar handar.

Enska liðið var beinskeyttara og byrjaði síðari hálfleikinn af krafti, líkt og þann fyrri. Yassine Bounou, markvörður Sevilla, greip hins vegar vel inn í oftar en einu sinni þar sem United-mönnum virtist hreinlega fyrirmunað að skora.

United-mönnum refsaðist fyrir það þegar Hollendingurinn Luuk De Jong afgreiddi fyrirgjöf Jesúsar Navas í markið af stuttu færi á 78. mínútu, þar sem varnarleikur Manchester-liðsins var allt annað en sannfærandi. Mörkin urðu ekki fleiri og vann Sevilla leikinn 2-1.

Sevilla fer í úrslit Evrópudeildarinnar í sjötta sinn en liðið hefur fagnað sigri í hvert einasta af skiptunum fimm og er því sigursælasta lið í sögu keppninnar. Fyrsti titill liðsins vannst árið 2006 en sá síðasti 2016.

Annað hvort Internazionale frá Mílanó eða Shakhtar Donetsk frá Úkraínu mun mæta Sevilla í úrslitunum en undanúrslitaleikur þeirra fer fram klukkan 19:00 annað kvöld.