Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segir hlutverk sitt líkast mennskri umferðarkeilu

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Tou Thao, einn lögreglumannanna sem er ákærður fyrir aðild að morðinu á George Floyd í Minneapolis í maí, segir hlut sinn í málinu afskaplega lítinn. Hans hlutverk hafi helst verið að halda aftur af vegfarendum. Frá þessu greindi hann í yfirheyrslu hjá ríkislögreglunni í Minnesota.

Myndband af yfirheyrslu Thaos var gert opinbert á föstudag. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs lýsir Thao aðstæðum þannig að hann hafi verið nokkurs konar mennsk umferðarkeila. Hann hafi haldið aftur af vegfarendum sem urðu sífellt æstari eftir því sem á leið aðgerð lögreglunnar gegn Floyd. Floyd lét lífið eftir að lögreglumaðurinn Derek Chauvin hafði þrýst hné sínu að hálsi hans í nærri níu mínútur. Floyd reyndi ítrekað að segja lögreglumönnum að hann ætti í erfiðleikum með að anda, og vegfarendur kölluðu eftir því að lögreglumennirnir kæmu honum til aðstoðar. Thao sagði þetta hafa verið myrka stund í lífi hans. 

Komu til hjálpar þrátt fyrir að vera afturkallaðir

Þeir Thao og Chauvin lögðu af stað á vettvang eftir að þeir Thomas Lane og Alexander Kueng báðu um aðstoð. Þeir ætluðu að handtaka Floyd vegna gruns um að hann hafi ætlað að greiða með fölsuðum 20 dala seðli í kjörbúð. Á leiðinni á vettvang bárust þau skilaboð úr talstöðinni að aðstoð væri afturkölluð. Thao, sem var við stýrið, sagðist hafa ákveðið að mæta samt á vettvang. Þeir Lane og Kueng væru nýir og óreyndir lögreglumenn, og umdæmið einkar andsnúið lögreglunni að sögn Thaos.

Í yfirheyrslunni sagði Thao að Floyd hafi litið út fyrir að vera undir áhrifum eiturlyfja. Hann hafi sýnt mótþróa við handtöku og sparkað frá sér til þess að komast út úr lögreglubíl. Thao segist hafa heyrt Floyd segja að hann gæti ekki andað, en þá hafi hann bersýnilega verið að hrópa og tala. Thao sagði einnig að hann hafi aldrei beitt aðferðinni sem Chavin notaði þegar hann drap Floyd.

Thao er ásamt Lane og Kueng ákærður fyrir aðilda að annarrar gráðu morði og manndrápi. Chauvin er ákærður fyrir annarrar og þriðja gráðu morð og manndráp. Þeir voru allir reknir úr starfi.