Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ólafur Helgi: „Ekki kunnugt um neinar breytingar“

Mynd með færslu
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist ekki vita til þess að til standi að gera neinar breytingar á stöðu sinni, en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði fyrir um þremur vikum síðan að mál Ólafs væru til skoðunar innan ráðuneytisins eftir að hafa boðið Ólafi flutning í embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum.

Dómsmálaráðherra hefur verið með til meðferðar kvartanir starfsmanna lögregluembættisins á Suðurnesjum vegna framkomu Ólafs í starfi og eineltis tveggja annarra yfirmanna innan embættisins. Niðurstaða átti að hafa fengist í málið um miðjan þennan mánuð.

Fullyrt hefur verið að hluti starfsmanna embættisins vinni gegn Ólafi og að vinnustöðin sé vart starfhæf vegna samskiptaerfiðleika. Ólafur segir að svo sé ekki og segist ekki vita til þess að nokkrar breytingar verði gerðar á stöðu hans.

„Mér er ekki kunnugt um það,“ segir Ólafur.„ En hins vegar er rétt að taka það fram að embættið er afskaplega vel starfhæft. Það eru 170 manns sem vinna hér við embættið og það fólk vinnur af mikilli samviskusemi og það hefur ekki komið að neinni sök þó að fjallað hafi verið um embættið með þeim hætti sem gert hefur verið.“

Ekki náðist í dómsmálaráðherra vegna málsins.