Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fjölmennustu mótmæli í sögu Hvíta-Rússlands

16.08.2020 - 22:46
Mynd: EPA-EFE / EPA
Mestu mótmæli í sögu Hvíta-Rússlands fóru fram í dag, viku eftir forsetakosningarnar sem vöktu reiði almennings. Forsetinn Alexander Lúkasjenkó er sakaður um víðtækt kosningasvindl en hann virðist enn ætla að sitja sem fastast. Við vörum við myndum í þessari frétt.

Áður en skipulögð mótmæli gegn Lukasjenkó hófust komu nokkur þúsund manns sér fyrir í miðborg Minsk til þess að sýna forsetanum stuðning. Lúkasjenkó er sagður hafa skipulagt samkomuna sjálfur. Ekkert fararsnið virðist á forsetanum. Hann gaf áfram í skyn að andstaðan kæmi erlendis frá og að hersveitir Nato væru að undirbúa árás. 

En þau voru mun fleiri, jafnvel nærri hundrað þúsund, sem lögðu leið sína í miðborgina til þess að krefjast þess að hann léti af völdum eftir nærri þriggja áratuga valdatíð. Síðustu daga hafa þúsundir verið handtekin í mótmælum gegn forsetanum. Fjölmörg þeirra lýsa ofbeldi og pyntingum af hendi lögreglu og öryggissveita og tveir hafa látist. Annar þeirra er hinn 34 ára Alexander Taraikovsky. Fréttmaður AP tók þetta myndband þar sem hann sést falla til jarðar, með stóran blóðblett á bringunni. Hvítrússneska lögreglan segir hann hafa látist þegar hann ætlaði að kasta sprengju að lögreglumönnum, en hún hafi sprungið í höndunum á honum. Unnusta hans segir engan vafa leika á að hann hafi verið skotinn til bana.