Bryndís hetja Fylkis - Þriðji sigur Eyjakvenna í röð

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Bryndís hetja Fylkis - Þriðji sigur Eyjakvenna í röð

16.08.2020 - 16:15
Keppni í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta hófst á ný eftir tveggja vikna hlé í dag er tveir leikir voru á dagskrá. Fylkir vann dramatískan sigur á Selfossi.

Tvö stig aðskildu lið Selfoss og Fylkis fyrir leik dagsins, Fylkiskonur voru með 12 stig í þriðja sætinu en Selfoss með tíu í því fjórða. Leikur liðanna var nokkuð lokaður framan af en Selfosskonur voru þó líklegri aðilinn.

Eftir markalausan fyrri hálfleik opnaðist leikurinn í þeim síðari en mörkin létu þó á sér standa þar sem Selfoss fékk lunga marktækifæranna. Hin 17 ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð vaktina vel í marki Fylkis og kom fyrsta mark leiksins ekki fyrr en á lokamínútunni. Þar var að verki Bryndís Arna Níelsdóttir, jafnaldra Cecilíu, sem skoraði sitt sjöunda mark í deildinni er hún tryggði Fylki 1-0 sigur.

Fylkiskonur halda því þriðja sæti deildarinnar þar sem þær eru með 15 stig, fjórum frá Val sem er í öðru sæti. Selfoss er með tíu stig í fimmta sæti þar sem liðið missti ÍBV upp fyrir sig í dag.

Karlina Miksone og Fatma Kara skoruðu mörk Eyjakvenna í 2-0 sigri liðsins á nýliðum Þróttar í Laugardalnum í dag. Sigurinn er sá þriðji sem ÍBV vinnur í röð og er liðið með tólf stig í fjórða sætinu.