Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Borgarstjóri krefur ráðherra um nýjan flugvöll án tafar

Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon - RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra bréf þar sem hann krefst án tafar að fundinn verði nýr staður fyrir kennslu- og einkaflug í stað Reykjavíkurflugvallar. Borgarstjóri segir að framkvæmdirnar kæmu sér vel vegna erfiðleika í efnahagslífinu. Forseti Flugmálafélags Íslands segir borgina vinna á móti flugstarfsemi.

Í bréfinu vísar Dagur til samkomulags sem ríkið og borgin gerðu á milli sín í október 2013, en í því felst meðal annars að innanríkisráðuneytið og Isavia hafi forgöngu um að finna kennslu og einkaflugi nýjan stað í nágrenni Reykjavíkur.

Einnig vísar borgarstjóri til samkomulags samgöngu -og sveitarstjórnarráðherra og Reykjavíkurborgar síðan í fyrra um  rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Þá er vísað til ýmissa fyrri samþykkta um skipulag svæðisins.Mikilvægt sé að æfinga- og kennsluflug fái nýja staðsetningu í ljósi mikilvægis flugs sem atvinnugreinar.

„Þeir sem koma að gerð flugstefnu tóku undir mikilvægi þess að fara í þetta mál og flugstefnan var fylgiskjal með samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti núna í júní,“ segir Dagur.

Hann segir að uppbygging nýs flugvallar væri liður í að vinna gegn efnahagssamdrætti. Það sé ríkisins og Isavia að ákveða hvar þessi starfsemi verður. „Þessi óvissar er ekki góð fyrir neinn. Þannig að ég vonast eftir því að það verði breiður stuðningur við það að ráðast í þetta mikilvæga verk.“

Matthías Sveinbjörnsson forseti Flugmálafélags Íslands er með starfsemi á flugvallarsvæðinu. Hann segir að borgin hafi ekki haft samráð við hagsmunaaðila og hafi staðið í vegi fyrir sölu á flugskýlum á svæðinu. Síðasta samkomulag hafi falið í sér að tryggja rekstrarskilyrði vallarins á núverandi stað og hann líti svo á að það sé enn í gildi.  

„Síðastliðna tvo eða þrjá áratugi hafa menn verið að reyna að bola kennslu- og einkaflugi burt af Reykjavíkurflugvelli. Það hefur hangið á nokkrum samkomulögum, að finna þessu nýjan stað í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. En það hefur ekki enn verið gert og það hefur ekki átt sér samtal við okkur um þessa hluti,“ segir Matthías.

„Borgin hefur leynt og ljóst unnið gegn flugi á Reykjavíkurflugvelli, sérstaklega kennslu- og einkaflugi.“