Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðhöfðu ekki heimkomusmitgát og reyndust smitaðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Embætti ríkislögreglustjóra þurfti í gær að leita að nokkrum úr 13 manna hópi sem kom til landsins í gegnum öruggt land en viðhafði ekki heimkomusmitgát. Við sýnatöku kom í ljós að sjö úr þessum 13 manna hópi reyndust vera með kórónuveirusmit. Þeir eru nú í einangrun á þeim stað sem þeir höfðu gefið upp við komuna til landsins.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá embætti ríkislögreglustjóra, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Hópurinn kom til landsins á fimmtudag. Landamæraverðir ákváðu við stikkprufu að kalla fólkið í sýnatöku þar sem það var að koma í gegnum öruggt land en ekki frá öruggu landi.   

Það átti síðan að viðhafa svokallaða heimkomusmitgát og mæta í aðra sýnatöku. Einhverjir úr þessum hópi sinntu ekki þeirri skyldu sinni en fundust fljótlega. Sjö af þessum 13 reyndust síðan smitaðir af COVID-19. 

Jóhann segir smitrakningu í gangi en ekki sé talið að það hafi verið í miklum samskiptum við aðra.  Líklegt má telja að þetta séu þau sjö smit sem greint var frá í dag þar sem fjórir voru í sóttkví en þrír ekki.  Sýnin verða raðgreind hjá Íslenskri erfðagreiningu til að komast að uppruna veirunnar.

Ekki fékkst gefið upp hvaðan fólkið er né frá hvaða landi það var að koma.

Jóhann segir ekki vitað hvort fólkið hafi gert þetta af ásetningi eða hvort það hafi einfaldlega ekki vitað betur.

Nýjar reglur fyrir þá sem koma hingað til lands taka gildi á miðvikudag. Þá verða allir skimaðir við komuna til landsins og svo aftur eftir 4 til 5 daga sóttkví. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV