Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Réttir og göngur verða með breyttu sniði í ár

15.08.2020 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Útlit er fyrir að smalamennska og réttir verði með óvenjulegu sniði þetta haustið. Fjöldatakmarkanir verða í samræmi við sóttvarnareglur og aðeins þeim sem eiga fé í réttum leyft að taka þátt.

Það er fastur liður hjá mörgum að sækja réttir að hausti og aðstoða bændur við að koma fé til síns heima eftir sumardvöl á afrétti. Réttir eru jafnan vel sóttar af brottfluttu sveitafólki og skipa stóran sess í lífi fólks. Á því gæti orðið breyting í haust í ljósi stöðunnar í samfélaginu. Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, fjallkóngur Tungnamanna og bóndi í Bræðratungu, segir að fjöldi verði takmarkaður í réttum í ár.

„Þetta er vissulega breyting, réttir verða með óhefðbundnu sniði, það liggur fyrir. Þetta er bara staðan sem við búum við og við verðum bara að sætta okkur við það og allir þeir fjöldamörgu gestir sem hafa sótt okkur heim, bæði í Tungnaréttir og Skeiðaréttir, þar hefur fólk verið í hundraðatali, þeir verða bara að koma að ári, en við sem þurfum að fara í réttir og sækja okkar fé við förum, en aðrir verða bara því miður að sitja heima,“ segir Guðrún.

Treystir á að fólk haldi sig heima

Til stendur að funda eftir helgina með fulltrúum Almannavarna á svæðinu um útfærslu smalamennsku. Landsamtök sauðfjárbænda ætla einnig að gefa út leiðbeiningar eftir helgina varðandi smölun í haust. Smalar gista víða í fjallakofum og þar getur oft verið þröng á þingi. Sigfús Sigurjónsson sauðfjárbóndi á Borgarfelli í Skaftártungu segir í samtali við fréttastofu að einn af þeim möguleikum sem séu til skoðunar sé að smalar haldi sig í sjálfskipaðri sóttkví í aðdraganda smölunar. Guðrún segir að á hennar svæði sé staðan góð, skálarnir séu vel rúmir og góð aðstaða til að uppfylla sóttvarnaskilyrði. Það sé þó ekk alls staðar raunin og hugsanlega þurfi að sækja um undanþágu frá Almannavörnum á vissum stöðum.

„Þar sem aðstæður verða þannig að við þurfum að fara í bíla þá munum við bara nota grímur og gæta að sóttvörnum, einstaklingssóttvörnum.“ segir hún.

Í kringum réttir skapast gjarnan mikil gleði, fjöldi fólks kemur saman og gerir sér glaðan dag. Réttir hafa löngum skipað stóran sess í menningarlífi fólks til sveita og er fastur liður í tilverunni. Guðrún óttast ekki að erfitt verði að halda fólki í skefjum og takmarka aðgengi.

„Ég hef bara þá trú á þeim sem hafa sótt réttir, þetta er nú allt sveitafólk og ekki þurfum við að hafa áhyggjur af túrismanum sem hefur verið ansi fjölmennur í réttum. Ég held bara að fólk komi til með að virða þetta og mæti bara ekki í réttir. Auðvitað munum við reyna að hafa eitthvað eftirlit en hvort að við þurfum að fá lögregluna með okkur í lið eða eitthvað slíkt, við eigum bara eftir að ræða það við Almannavarnir,“ segir Guðrún.

 

Mynd með færslu