Obama gagnrýnir framferði Trumps gegn póstinum

epa05706708 (FILE) A file picture dated 10 November 2016 shows US President Barack Obama (R) as he shakes hands with President-elect Donald Trump (L) at the end of their meeting in the Oval Office of the White House in Washington, DC, USA. On 04 November
 Mynd: EPA
Fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn Barack Obama segir aðfarir eftirmanns síns gagnvart bandarísku póstþjónustunni einstakar í stjórnmálasögunni. Hann sé að reyna að koma í veg fyrir að fólk geti greitt atkvæði með því að fjársvelta póstþjónustuna.

„Við höfum aldrei áður orðið vitni að forseta segja: „Ég ætla að reyna að knésetja póstþjónustuna til að draga úr kjörsókn og ég ætla að vera opinskár um það,"" sagði Obama í hlaðvarpsþætti með fyrrverandi kosningastjóra sínum, David Plouffe.

Donald Trump hefur verið gagnrýndur af mörgum fyrir framferði sitt í garð póstþjónustunnar. Talið er að fjöldi kjósenda treysti á að geta greitt póstatkvæði í forsetakosningunum í nóvember, sökum kórónuveirufaraldursins. Trump telur það sér í óhag ef stór hluti kjósenda greiðir atkvæði utan kjörfundar, og hefur því gripið til þess ráðs að fjársvelta stofnunina.

Samkvæmt Washington Post hefur póstþjónustan þegar varað 46 ríki við því að póstlagðir atkvæðaseðlar eigi eftir að skila sér of seint til þess að atkvæðin verði gild. Þá greina fjölmiðlar vestanhafs frá því að til standi að fjarlægja hundruð véla sem sjá um að flokka póst víða um Bandaríkin.

Stjórnandinn á í keppinautum

Nýr stjórnandi póstþjónustunnar hefur einnig hlotið sinn skerf af gagnrýni. Trump réði Louis DeJoy til starfsins. DeJoy hefur lagt sitt af mörkum í kosningasjóð Trumps og Repúblikana, og tók hann við starfinu í sumar. Að sögn bandarískra fjölmiðla rekast hagsmunir fjármála DeJoy harkalega á við stöðu hans hjá póstþjónustunni, því hann og eiginkona hans eiga hluti að andvirði milljóna dollara í fyrirtækjum sem eru í beinni samkeppni við póstinn. Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Demókrata, hefur kallað eftir rannsókn á DeJoy og störfum hans.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi