Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fangi leystur úr bílskúr foreldra sinna

15.08.2020 - 06:58
Ryðguð keðja.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Lögreglan í borginni Kano í norðanverðri Nígeríu leysti á dögunum þrítugan karlmann úr haldi foreldra sinna. Maðurinn hafði verið læstur inni í bílskúr á heimili föður síns og stjúpmóður í þrjú ár. Foreldrarnir voru handteknir og lögreglan er með málið til rannsóknar.

Lögreglan mætti á staðinn eftir að nágrannar höfðu lýst áhyggjum sínum. Maðurinn var of máttvana til þess geta gengið, og var honum veitt aðstoð inn í bíl. Honum var svo ekið á sjúkrahús að sögn fréttastofu BBC. Honum hafði verið haldið án þess að vera færður matur, og gekk hann örna sinna á gólfið í bílskúrnum.

Lögreglan segir foreldra mannsins hafa læst hann inni í skúrnum vegna gruns um eiturlyfjaneyslu. Hann hafi verið skilinn þar eftir án matar og heilbrigðisaðstoðar. Einhverjar heimildir herma að hann hafi verið læstur inni í allt að sjö ár.

Annað málið í vikunni

Þetta er í annað sinn í vikunni sem einstaklingi er bjargað úr hryllilegum aðstæðum af heimili foreldra sinna í Nígeríu. Lögreglan í Kebbi héraði bjargaði tíu ára dreng á miðvikudag. Honum hafði verið haldið í stíu í tvö ár að sögn BBC.

Fréttamaður BBC í Abuja segir að eiturlyfjaneysla sé vandamál í norðurhluta Nígeríu. Fá opinber úrræði eru fyrir fíkla, og hafa sumir foreldrar því gripið til eigin ráða til þess að reyna losa börn sín við fíknina. Nokkur þeirra hafa verið sendi í einkareknar meðferðastofnanir. Þeim hefur sumum hverjum verið lokað eftir að upp komst að þar voru skjólstæðingarnir pyntaðir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV