Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vonar að samkomulag leiði til tveggja ríkja lausnar

epa07866134 United Nations (UN) Secretary General Antonio Guterres speaks during the general debate of the 74th session of the General Assembly of the United Nations at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 24 September 2019. The annual meeting of world leaders at the United Nations runs until 30 September 2019.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, vonast til þess að samkomulag Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna greiði leið tveggja ríkja lausnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Ríkin undirrituðu samkomulag í gær, þar sem Ísraelsmenn heita því einnig að fresta frekari innlimun á palestínsku landi.

Guterres sagði innlimun nánast útiloka friðarviðræður á milli leiðtoga Ísraels og Palestínu, og koma í veg fyrir möguleikann á tveggja ríkja lausn. Í yfirlýsingu segist hann fagna samkomulaginu. Hann vonast til þess að það opni á viðræður milli Ísraels og Palestínu um tveggja ríkja lausn í samræmi við tilskipanir Sameinuðu þjóðanna, alþjóðalög og tvíhliða sáttmála. 

Palestínumenn hafa brugðist hart við samkomulaginu og segja það svik við málstað sinn. Samkvæmt því taka ríkin upp formlegt stjórnmálasamband og hafa gert samkomulag um að Ísraelar fresti formlegri innlimun Vesturbakkans. Stjórnvöld í Ísrael og furstadæmunum lýstu því yfir að samkomulagið væri skref í átt að friði í mið-Austurlöndum. Því eru Palestínumenn ekki sammála og segir Mahmoud Abbas, forseti, að samningurinn sé árás gegn palestínsku þjóðinni og svik við málstað þeirra, þar á meðal þá stefnu að Jerúsalem verði framtíðar höfuðborg landsins. Þeir hafa kallað sendiherra sinn í furstadæmunum heim vegna málsins. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði milligöngu með samkomulaginu. Hann sagði á blaðamannafundi í gærkvöld að von væri á þeim Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Mohammed bin Zayed, leiðtoga furstadæmanna, eftir um þrjár vikur til að undirrita samkomulagið í Hvíta húsinu.