Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vísbendingar um að hlaup sé hafið í Grímsvötnum

14.08.2020 - 10:02
Mynd með færslu
Grímsvötn. Mynd: Katla Líndal
Vísbendingar eru um hlaup í Grímsvötnum. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi staðfestir að lögreglan á Suðurlandi hafi verið upplýst um að vísbendingar séu um hlaup. Fundur stendur yfir á Veðurstofu Íslands og ekki er hægt að fá meiri upplýsingar að svo stöddu en að breytingar sjást á GPS-mælum á svæðinu. GPS-mælar greina landris.Sé hlaup hafið tekur talsverðan tíma fyrir það að ná til byggðar.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi staðfestir að Almannavarnir hafi haft samband við embættið í morgun og sagt vísbendingar um að hlaup sé hafið, en engin ummerki séu farin að sjást í byggð.

Hann segir að öllum lögreglustöðvum í umdæminu hafi verið gert viðvart, en enginn viðbúnaður sé hafinn enn.

Finnur Pálsson, verkfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, hefur eftirlit með mælingum við Grímsvötn. Í samtali við Fréttastofu segir hann að mælar Veðurstofu hafi sýnt nokkurra sentímetra frávik á vatnsyfirborði í gær og að það hafi verið stöðugt síðan þá. Finnur segir að ekki sé enn ljóst hvort um sé að ræða óvissu í mælingum eða hvort hlaup sé að hefjast. Svæðið verður vaktað í dag og næstu sólarhringa.

Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins. Í miðju þeirra er askja og stöðuvatn þar ofan á og íshella yfir öllu saman. Vel er fylgst með Grímsvötnum með gps mælum á öskjubarminum og mælum sem fylgjast með vatnsborðinu. Þá verður hlaupa einnig vart á yfirborðinu þegar íshellan lækkar. Vatnsborðið í stöðuvatninu hækkar alla jafna jafnt og þétt á milli þess sem það hleypur úr Grímsvötnum. Vatnsborðið hækkaði um þrjá sentimetra á dag í júnímánuði og þá var það metið svo að hlaup gæti hafist á næstu vikum eða mánuðum. Síðustu ár hefur hlaupvatn úr Grímsvötnum oftast farið í Gígjukvísl en hlaup nær yfirleitt ekki hámarki fyrr en eftir 2-5 daga. 

Grímsvatnahlaup getur leyst eldgos úr læðingi. Áhrif af þeim eru þó alla jafna ekki mikil en þau geta haft áhrif á flugumferð. Síðast gaus úr Grímsvötnum 2011. Komi til eldgoss nú er mjög ólíklegt að gosið verði jafn stórt og þá, en það var stærsta gos sem komið hefur úr Grímsvötnum í 140 ár.  

Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins, þar hefur líklegast gosið hátt í hundrað sinnum frá landnámi, þar af þrettán sinnum frá árinu 1902. Eldstöðvarkerfið er meira en 100 kílómetra langt og nær suður fyrir Lakagíga. Í öskju Grímsvatna er stöðuvatn þar sem bræðsluvatn safnast saman og þegar það hleypur fram fer það niður á Skeiðarársand.

Kl 10:49: Fréttin hefur verið uppfærð