„Þetta er skítugasta umræðan sem enginn vill heyra“

Mynd:  / 

„Þetta er skítugasta umræðan sem enginn vill heyra“

14.08.2020 - 10:08

Höfundar

Íris Stefanía Skúladóttir sviðslistakona rannsakar nú barnlausan lífsstíl með áherslu á konur sem kjósa að eignast ekki börn. Rannsóknin mun enda sem sýning eða verk á tveimur listahátíðum í vetur.

„Minn drifkraftur er að skoða rétt kvenna til að gera það sem þær vilja við eigin líkama og líf. Ég er nýútskrifuð úr mastersnámi í sviðslistum við Listaháskólann og mín rannsóknarspurning var um kynhegðun kvenna,“ segir Íris í samtali við Morgunútvarpið. „Þar fjallaði ég um sjálfsfróun meðal annars og vildi gera verkefni sem væri valdeflandi fyrir konur, að þær gætu eignað sér narratífuna yfir líkama sínum.“ Hún verður svo með sýningu ásamt vinkonu sinni í vetur í Ásmundarsal. „Þetta er svona kellingasýning. Hún fjallar um meðvirkni, móðurhlutverkið, í sínum breiðasta skilningi, hvort þú viljir vera móðir, getir það eða hvað.“

Íris ákvað í kjölfarið að beina sjónum sínum að konum sem kjósa að eignast ekki börn og í kjölfarið var henni boðið að sýna á sviðslistahátíðinni Lókal. Hún kallar eftir sögum kvenna sem ekki vilja eignast börn en segir það nokkuð viðkvæmt málefni. „Þetta er innbyggt kerfi sem við búum við þar sem konur eiga að vilja eignast börn, og ef þær vilja það ekki er það skrítið.“ Hún vonast til að rannsókn hennar og verkefni leiði til minni fordóma gegn konum sem eignast ekki börn. Íris tekur dæmi af Tinnu Haraldsdóttur sem fór í ófrjósemisaðgerð á þrítugsaldri og hefur haldið blogg um mótlætið sem hún mætti.

„Það er aðeins búið að opna á þetta hér, en meira erlendis,“ segir Íris. „Við erum náttúrulega mjög fjölskylduvæn þjóð, þó við teljum okkur framarlega í réttindum kvenna og hinsegin fólks verður það helst að vera í fjölskylduvænum búning.“ Hún óskar eftir frásögnum kvenna í tölvupósti eða Facebook-skilaboðum en er ekki búin að ákveða hvernig hún vinnur úr sögunum. „Á Lókal verður sýning/skemmtikvöld. Í Ásmundarsal verður þetta að hljóðverki, og það fær ekki að vera neins staðar frammi heldur setjum við það á klósettið því þetta er skítugasta umræðan sem enginn vill heyra.“ Íris vill ekki taka málefnið allt of alvarlega og hyggst nálgast það með vænum skammti af húmor. „Svo ef fólk er í þessum hugleiðingum er hópur á Facebook fyrir fólk sem kýs að eignast ekki börn.“

Rætt var við Írisi Stefaníu Skúladóttur í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Við leyfum gömlu fólki ekki að vera kynverur“

Menningarefni

Konur mega líka tala um sjálfsfróun

Bókmenntir

Safnar sjálfsfróunarsögum