Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stúlkur lentu í sjálfheldu í Eyvindará

14.08.2020 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: Upplifðu Austurland
Tvær stúlkur, ellefu og tólf ára, lentu í sjálfheldu í Eyvindará síðdegis í dag. Þær bárust niður með straumharðri ánni að flúð uns foreldrar þerirra komu þeim til bjargar. Tilkynning barst lögreglu vegna óhappsins um korteri fyrir sex í kvöld.

Stúlkurnar, ásamt fjölda annarra, höfðu verið að stökkva í ána eins og tíðkast á góðviðrisdögum. Stúlkunar bárust með straumi árinnar niður að flúð sem er neðar í ánni, þar lentu þær í sjálfheldu og þurftu foreldrar þeirra, ásamt nokkrum þeirra sem viðstaddir voru, að bjarga þeim upp úr ánni. Þetta kemur fram í tilkynningu Lögreglunnar á Austurlandi. Stúlkurnar sluppu með skrekkinn og fóru heim til sín eftir skoðun hjá lækni.

Lögreglan kemur í kjölfarið á framfæri ábendingu þess efnis að áin getur verið varasöm. Sterkur straumur sé í henni sem fólk geti auðveldlega lent í vandræðum vegna. Mikið afrennsli er nú úr fjöllum á Austurlandi vegna hlýinda undanfarið og því áin vatnsmikil um þessar mundir.

Lögregla bendir einnig á að ef einhver sem var vitni af atvikinu telur sig þurf á áfallahjálp að halda er honum bent á að hafa samband við næstu heilsugæslustöð.

„Höfum gaman en förum varlega,“ skrifar lögreglan.

Eyvindará streymir í gegnum láglendi Héraðs og rennur í Lagarfljót. Hún sprettur af þverám sem falla frá Fagradal, Gagnheiði og Fjarðarheiði.

 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV